Íslenska landsliðið er á faraldsfæti í dag en það flýgur til hinnar sögufrægu borgar Volgograd í dag þar sem það mætir Nígeríu í öðrum leik liðsins í D-riðli heimsmeistaramótsins á föstudaginn. Líkt og fyrir leikinn gegn Argentínu í Moskvu á dögunum mun landsliðið taka æfingu á æfingasvæði liðsins í Kabardinka fyrr um daginn og síðan munu Hannes Halldórsson og Alfreð Finnbogason sitja fyrir svörum á blaðamannafundi. Áætlað er að landsliðið fari í loftið klukkan 17.00 að staðartíma, um 14.00 að íslenskum tíma, en flugið er ekki langt og á vélin að lenda um klukkustund síðar í Volgograd.
Það er von á miklum hita í borginni, við lendingu er spáð 32 gráðu hita en á meðan strákarnir okkar dvelja í borginni er spáð um þrjátíu stiga hita. Aðeins á næturnar mun hitinn fara nær tuttugu gráðunum.
Munu þeir taka æfingu á keppnisvellinum, Volgograd Arena, sem rúmar 45.000 manns, í hádeginu á morgun, áður en Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson mæta á blaðamannafund.
Fyrsti leikur mótsins á Volgograd-vellinum fór fram í fyrrakvöld þegar England vann 2-1 sigur á Túnis en það var annað en úrslit leiksins sem vakti mikla athygli. Þar sem Volgograd-völlurinn stendur á bakka Volgu voru skordýr að trufla liðin við undirbúning og á meðan á leik stóð.
Sást til leikmanna, stuðningsmanna og starfsmanna slá frá sér moskítóflugur á meðan leikurinn stóð yfir þrátt fyrir að þeir hefðu borið á sig skordýrafælu. Harry Kane, fyrirliði Englands, sagði að það hefði litlu skilað er hann ræddi við blaðamenn eftir leik. „Þetta var mun verra en við bjuggumst við, við settum á okkur fælu fyrir leik og í hálfleik en samt fékk ég flugur í augun, nefið og upp í mig á meðan leikurinn stóð yfir.“ Starfsteymi KSÍ var búið að huga að þessu og tók nóg af fælu með sér til Rússlands en það er spurning hvort það bjargi íslenska landsliðinu þegar á hólminn er komið.

