„Þetta er allt eins og það á að vera.“
Jói Pje og Króli fluttir til í dagskránni
Um 500 manns, þar af 50-100 sjálfboðaliðar, koma að undirbúningi hátíðarinnar með einum eða öðrum hætti, að sögn Jóns. Mikil spenna ríkir í undirbúningshópnum og þá má ætla að gestir hátíðarinnar séu einnig spenntir, nú þegar herlegheitin eru rétt handan við hornið.„Hliðið opnar klukkan fimm á morgun og fyrsta dagskráratriðið byrjar klukkan hálf sex, það er Sylvía Erla sem opnar,“ segir Jón.
Ein breyting hefur orðið á dagskránni sem aðgengileg er á netinu en dúóið JóiPé og Króli munu ekki koma fram á morgun, fimmtudag, heldur stíga þeir í staðinn á stokk á laugardaginn. Önnur atriði standa og munu gestir geta hlýtt á heimsfræga plötusnúðurinn Steve Aoki, Jet Black Joe og goðsögnina Bonnie Tyler.
Þá segir Jón enn til miða á opnunarkvöldið á morgun. Stakir miðar á laugardagskvöldið eru hins vegar uppseldir og ekki er í boði að fjárfesta í miðum á önnur stök kvöld á hátíðinni.

Sérhæft breskt fyrirtæki ráðið til að ganga frá
Undanfarin ár hafa íbúar í Laugardalnum, þar sem Secret Solstice-hátíðin hefur verið haldin ár hvert síðan árið 2014, gagnrýnt umgengni og frágang í kringum hátíðina. Aðspurður segir Jón að skipuleggjendur hafi gert sérstakar ráðstafanir í umgengnismálum í ár.„Í fyrsta lagi gerðum við samning við Reykjavíkurborg um að þau myndu halda hreinu fyrir utan hátíðarsvæðið og við höldum hreinu inni á hátíðarsvæðinu. Í öðru lagi réðum við breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í því að hreinsa til á hátíðum. Þau munu sjá um að ganga frá og flokka rusl og halda hreinu.“
Jón segir að grindverk í kringum hátíðarsvæðið hafi verið tekin niður of snemma í fyrra, auk þess sem brast á með roki skömmu síðar, og því hafi frágangi verið ábótavant. Hann segir undirbúningsaðila ekki hyggjast leika sama leik í ár.
Eins og áður segir hefst Secret Solstice-tónlistarhátíðin í Laugardalnum á morgun. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru áðurnefnd Bonnie Tyler, Gucci Mane, Slayer, Stormzy og Clean Bandit. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.