Fótbolti

Truflar Króatíu ekkert að hvíla nokkra menn

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Kári Árnason á blaðamannafundinum í dag.
Kári Árnason á blaðamannafundinum í dag. vísir/vilhelm
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, segir strákana okkar finna fyrir því að heimsmeistarmaótið er stærra en Evrópumeistaramótið sem þeir spiluðu í fyrir tveimur árum.

Kári og Emil Hallfreðsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi Íslands í Kabardinka í dag en þeir fljúga svo með liðsfélögum sínum til Rostov síðdegis.

„Þetta er keppni fyrir allan heiminn þannig að HM er stærra en EM. Við vorum á okkar fyrsta stórmóti á EM í fyrra en miðað við fjölmiðlaumfjöllunina er þetta miklu stærra,“ segir Kári.

„Við mætum liðum frá öðrum heimsálfum sem maður mætir annars ekki nema í vináttuleikjum. Það er í raun eini munurinn fyrir okkur. Inn á vellinum er þetta það sama.“

Ísland og Króatía hafa mæst nokkrum sinnum undanfarin ár en síðast þegar að liðin spiluðu vann Ísland á Laugardalsvelli. Króatíska liðið er sagt ætla að hvíla nokkra leikmenn en það mun samt sem áður stilla upp frábæru liði eins og Vísir tók saman í gær.

„Við höfum oft spilað við Króatíu oft áður. Það er komið upp úr riðlinum og eru með alveg frábært lið. Það sést bara á byrjunarliðinu sem er alveg frábært,“ segir Kári.

„Það skiptir engu máli þó svo að Króatía hvíli menn því á bekknum eru menn sem að spila með góðum liðum. Ég get ekki séð að þetta trufli þá eitthvað. Þeir missa kannski smá einstaklingsgæði út af en við þurfum alltaf að spila mjög vel,“ segir Kári Árnason.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×