Fótbolti

Kynþokki Rúriks fer ekki framhjá neinum

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Rúrik Gíslason er kominn með milljón fylgjendur.
Rúrik Gíslason er kominn með milljón fylgjendur. vísir/getty
Landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason komst í gær yfir milljóna fylgjenda múrinn á Instagram og nálgast nú að vera vinsælasti Íslendingurinn á þessum vinsæla samfélagsmiðli

Rúrik mætti til Rússlands með rétt ríflega 30 þúsund fylgjendur en er nú, tæpum tveimur vikum síðar, kominn yfir milljónina. Allt fór þetta af stað í leiknum á móti Argentínu og hafa vinsældirnar ekkert dvínað.

Rúrik er um 300 þúsund fylgjendum á eftir Fjallinu Hafþóri Júlíusi Björnssyni en okkar menn eiga að minnsta kosti einn leik eftir á HM og því ekki útilokað að Rúrik kveðji Rússland á toppnum.

„Ég er ánægður fyrir hans hönd. Það er bara gaman að þessu en hann er ekkert að einbeita sér að þessum hlutum. Hann á væntanlega einhver fyrirsætustörf fyrir höndum eftir að fótboltaferlinum lýkur,“ sagði Kári Árnason glettinn um þessar vinsældir Rúriks á blaðamannafundi í Kabardinka í morgun.

Það hafa ekki allir sama húmor fyrir vinsældum Rúriks á Instagram en Halldór Björnsson, fyrrverandi þjálfari U17 ára liðs Íslands, sendi strákunum okkar væna pillu eftir tapið á móti Nígeríu þar sem að hann kom meðal annars inn á Instagram-reikning Rúriks.

Kári Árnason birti mynd af íslenska hópnum í Leifsstöð á Instagram-reikningi sínum eins og allir landsliðsmennirnir nema hann skrifaði við hana „sexy Rúrik.“ Það var eins og hann hefði séð eitthvað fyrir.

„Það er ekki hægt að sjá fyrir að Rúrik sé sexy. Það sjá allir, held ég. Þetta átti nú bara að vera góðlátlegt grín og átti ekkert að ná lengra. Þetta var nú ekki kveikjan að neinu. Fólk sér þetta með eigin augum,“ sagði Kári Árnason.

Vísirer með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir

Kári: Veit ekki af hverju skipulagið riðlaðist

Kári Árnason var ekki með svör á reiðum höndum af hverju íslenska liðið hefði ekki náð sér á strik í síðari hálfleik gegn Nígeríu eftir flottan fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×