Portúgal var mun sterkara liðið í upphafi en náði þó ekki að skapa sér mikið af almennilegum færum og Íranir áttu sín tækifæri. Það var svo Ricardo Quaresma sem kom Portúgal yfir á loka mínútum fyrri hálfleiks með glæsilegu marki.
Hann fékk boltann fyrir utan teiginn og skaut utanfótar með hægri fæti glæsilegu skoti sem var óverjandi fyrir Alireza Beiranvand í markinu.
Beiranvand átti þó eftir að fá tækifæri til þess að sanna sig. Strax í upphafi seinni hálfleiks fékk Cristiano Ronaldo dæmda vítaspyrnu. Hann var tekinn niður alveg við mörk vítateigsins og ætlaði dómari leiksins ekki að dæma neitt á það. Eftir stutta stund ákvað hann þó að ráðfæra sig við myndbandstæknina og ákvað að dæma vítaspyrnu.

Undir lok hálfleiksins var Ronaldo aftur viðriðinn atvik sem var skoðað með myndbandstækninni. Hann braut á Pouraliganji og fór í andlitið á honum. Dómarinn vildi skoða hvort ætti að gefa rautt spjald fyrir brotið en ákvað að lyfta gula spjaldinu.
Í uppbótartíma fór dómarinn í þriðja skipti í myndbandstæknina. Hann ákvað að dæma vítaspyrnu á Cedric fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs. Karim Ansarifard fór á punktinn og jafnaði metin fyrir Íran.
Mehdi Taremi hefði getað tryggt Íran sæti í 16-liða úrslitunum og skilið Portúgal eftir með sárt ennið hefði hann hitt á rammann í dauðafæri sem hann fékk stuttu seinna en skot hans fór í hliðarnetið. Jafntefli niðurstaðan og Portúgal mætir Úrúgvæ í 16-liða úrslitum.