Hershöfðinginn Kim Yong-chol snæddi kvöldverð með utanríkisráðherranum Mike Pompeo. Þeir munu aftur funda í dag. Jafn háttsettur embættismaður frá Norður-Kóreu hefur ekki heimsótt Bandaríkin í tvo áratugi.
Síðan að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, aflýsti fyrirhuguðum fundi sínum með Kim Jong-un, sem fram átti að fara í Singapúr þann 12. júní næstkomandi, hafa sendinefndir ríkjanna tveggja gert ítrekaðar tilraunir til að reyna að koma fundinum aftur á dagskrá.
Ef af fundinum verður má ætla að hann verði sögulegur, enda hafa leiðtogar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna aldrei komið saman til fundar.
Good working dinner with Kim Yong Chol in New York tonight. Steak, corn, and cheese on the menu. pic.twitter.com/1pu4K3oym7
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) May 31, 2018
Hann ítrekaði jafnframt afstöðu Bandaríkjanna, þau vilji að Kóreuskaginn verði algjörlega laus við kjarnavopn að 12. júní-fundinum loknum. Norður-Kórea hefur á síðustu dögum lýst yfir algjörri andstöðu sinni við slíkar áætlanir, ekki síst vegna þess samanburðar sem embættismenn í Bandaríkjunum hafa gert á milli Norður-Kóreu og Líbýu.
Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbýu, samþykkti árið 2003 að hætta vinnu að kjarnorkuáætlun ríkisins en uppreisnarmenn, studdir af Vesturlöndum, drápu hann svo árið 2011. Er því ekki að undra að tillagan hafi farið öfugt ofan í Norður-Kóreumenn.
Vonast er því til að fundir Pompeo og Kim nái að sefa reiði Norðanmanna. Næsti fundur þeirra tveggja fer sem fyrr segir fram síðar í dag.