Innlent

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefja formlegar viðræður

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins, og Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta í Fljótsdalshéraði.
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins, og Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta í Fljótsdalshéraði.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu í gærkvöldi að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta í Fljótsdalshéraði.

Að því er fram kemur á vef Austurfrétta hittust frambjóðendurnir í gærkvöldi og ákváðu að láta á það reyna að mynda meirihluta. Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins, ætla að halda viðræðum áfram um helgina.

Héraðslistinn, samtök félagshyggjufólks í Fljótsdalshéraði, er stærsti flokkurinn að afloknum sveitarstjórnarkosningum en hann hlaut 30,8% atkvæða og tryggði sér þrjá bæjarfulltrúa. Næst stærstur er Sjálfstæðisflokkurinn með Önnu Alexandersdóttur í broddi fylkingar en hann hlaut 26,7% atkvæða og fékk 3 menn kjörna. Auk Önnu eru Gunnar Jónsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir bæjarfulltrúar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Framsóknarflokkurinn fylgir fast á hæla Sjálfstæðisflokksins því hann hlaut 25,6% atkvæða í nýafstöðnum kosningum. Auk Stefáns Boga var Önnu Gunnhildi Ingvarsdóttur einnig tryggt sæti í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.

Miðflokkurinn hlaut 17% atkvæða og fékk einn mann kjörinn, Hannes Karl Hilmarsson.

Síðastliðin fjögur ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta samstarfi með Héraðslistanum og Á-listanum sem ekki bauð fram aftur.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn ætla að láta á það reyna hvort flokkarnir nái saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×