Það ætlar að ganga illa hjá fólki í Formúlu 1 að sætta sig við að skiltastelpurnar séu farnar. Nú hefur heimsmeistarinn Lewis Hamilton kallað eftir því að fá þær aftur.
Yfirmenn íþróttarinnar sögðu það ekki vera í takt við þjóðfélagsandann að vera áfram með stelpurnar en margir mótmæltu að hætta með þær. Þar á meðal stelpurnar sjálfar sem og margir ökuþórar.
„Konur eru það fallegasta sem til er í heiminum. Keppnin í Monaco er mjög fáguð og það eru alltaf fallegar stelpur á svæðinu. Þannig er Monaco-kappaksturinn og það er yndislegt,“ sagði Hamilton.
Það verða stelpur á svæðinu í keppninni í ár en þó í dulargervi. Það koma nefnilega stelpur frá úraframleiðandanum Tag Heuer í gryfjuna en þær verða þó ekki með nein skilti.
Hamilton fær því að sjá fallegar stelpur áður en hann leggur af stað í sinn bíltúr.

