„Ég geri ráð fyrir því að dagurinn flæði áfram og það verður eitthvað spjallað í dag. Það er ekki þannig að fólk sitji á rökstólum. Þetta eru bara það margir,“ segir Þórdís Lóa í samtali við Vísi.
Sérðu fyrir þér að ræða jöfnum höndum við hægri og vinstri vænginn?
„Ja sko, við komum nýr flokkur inn og við erum bara að þreifa fyrir okkur. Þetta eru bara það margir og þetta er bara það snúið og við erum bara í þeim fasanum.“
Þórdís Lóa fékkst ekki til þess að nefna nein sértæk mál sem Viðreisn neitar að hvika frá en hún sagði að jafnrétti og mannréttindi væru leiðarljós í komandi viðræðum.
„Það eru ákveðin mál sem við neitum að hvika frá og það er jafnrétti og mannréttindi. Það er grunngildið okkar. Þetta er nefnilega marglaga. Við viljum frjálslynda, alþjóðlega og jafnréttissinnaða borg og það er grunnurinn okkar. Síðan eru fullt af málefnum og verkefnum sem leggjast ofan á og við erum búin að útlista þau svo vel í stefnunni okkar og þegar við sýndum spilum. Það á ekki að flækjast fyrir neinum oddvitum hvað við stöndum fyrir, ekki frekar en við vitum hvað hinir standa fyrir.“

Spurð hvort hún sjái fyrir sér borgarstjórastólinn svarar Þórdís Lóa því til að málefnin séu í forgangi.
„Ég hef alla tíð sagt að þetta snúist ekki um borgarstjórastólinn. Ég get alveg verið borgarstjóri eins og hver annar, ég hef bæði til þess reynslu og þekkingu en þetta snýst ekki um það, þetta snýst um málefnin. Við byrjum á því að vinna málefnin og síðan ákveðum við hver á að gera hvað og partur af því er að ákveða hver verður borgarstjóri,“ segir Þórdís Lóa.