Mikill uppgangur í ferðaþjónustu með tilheyrandi samfélagsbreytingum er einkennandi fyrir þau sveitarfélög sem blaðamaður Vísis heimsótti á Suðurlandi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem verða þann 26. maí. Fimmtán sveitarfélög eru á Suðurlandi en blaðamaður ræddi við íbúa í Bláskógabyggð, Mýrdalshreppi og sveitarfélaginu Hornafirði um kosningarnar og þau málefni sem brenna á fólki vegna þeirra á ferð sinni um landshlutann í byrjun maí.Sérstaða Bláskógabyggðar Blaðamaður hóf ferð sína á sólríkum en köldum miðvikudegi í Bláskógabyggð sem hefur ákveðna sérstöðu á meðal sveitarfélaga á Suðurlandi. Sérstaðan felst helst í því að þar eru þrír fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins: Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Gullfoss og Geysir eða hinn svokallaði Gullni hringur. Einnig eru mörg sumarhús í sveitarfélaginu og breytist það nánast í eitt stykki Kópavog yfir sumartímann og um helgar á veturna, eins og einn viðmælandi Vísis orðaði það. Sveitarfélagið varð til árið 2002 við sameiningu þriggja hreppa, það er Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Sveitarfélagið er 3300 ferkílómetrar að stærð og þar bjuggu 1115 manns þann 1. janúar síðastliðinn samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands. 23 prósent íbúanna eru með erlent ríkisfang. Þrír þéttbýliskjarnar eru í Bláskógabyggð; Laugarvatn, Laugarás og Reykholt. Tveir grunnskólar eru í sveitarfélaginu, annars vegar á Laugarvatni og hins vegar í Reykholti. Þá er menntaskóli á Laugarvatni. Matvöruverslanir eru í Reykholti og á Laugarvatni en heilsugæslan í Laugarási. Bæjarskrifstofurnar eru síðan í Reykholti en byggingarfulltrúinn er með aðsetur á Laugarvatni.Einar Á. E. Sæmundsen er þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og íbúi í Reykholti í Bláskógabyggð.vísir/sunnaÁskorun að stýra sveitarfélagi þegar einn sterkur atvinnuvegur kemur inn Einar Á. E. Sæmundsen er þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og íbúi í Reykholti. Hann segir ferðaþjónustuna hafa haft gríðarleg áhrif á allt samfélagið en þunginn í henni hafi aðallega komið fram á síðustu tíu árum. „Og það má segja að það sé heilmikil áskorun að stjórna sveitarfélagi við slíkar aðstæður þar sem það kemur einn svona sterkur atvinnuvegur inn og tekur svolítið yfir hefðbundnari landnotkun eins og landbúnað,” segir Einar. Hann segir mikil tækifæri koma með ferðaþjónustunni og að henni fylgi mikil nýsköpun en að hún hafi einnig áhrif. Nefnir Einar húsnæðismálin í því samhengi þar sem uppbygging húsnæðis sé ein af áskorununum sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar standi frammi fyrir. Ferðamenn á Þingvöllum. „Verða kannski til svolitlar verbúðir í sumum húsum“ Húsnæði sé eftirsóknarvert þar sem ferðaþjónustufyrirtæki þurfi húsnæði fyrir starfsmenn sína sem eru gjarnan erlendir ríkisborgarar og koma til að vinna í stuttan tíma. „Þannig að það verða kannski til svolitlar verbúðir í sumum húsum,“ segir Einar. Þá eru samgöngumálin í brennidepli þar sem vegirnir séu að grotna niður. Einar vill að vegurinn um Gullna hringinn verði betur skilgreindur sem ferðamannavegur og þar með ústýnisvegur þar sem hann telji að um 90 prósent þeirra sem fari um veginn séu erlendir ferðamenn. „Ég hef velt því fyrir mér að það þurfi að skilgreina þessa leið betur í skipulagi sem einn mikilvægasta ferðamannaveg landsins, til dæmis upp á það að bæta útsýnisstaði og þar með upplifun þeirra sem hér aka,“ segir Einar. Hann bætir við að eitt af því sem fylgi auknum ferðamannastraumi séu ferðamenn sem stöðvi alls staðar á vegum. Það sé mál sem þurfi að leysa og lausnin gæti falist í fleiri útsýnisstöðum við veginn.Holóttur Þingvallavegur enn um sinn Frá Þingvöllum lá leið blaðamanns á Laugarvatn og var þá ekið eftir Þingvallavegi og yfir Lyngdalsheiðina. Þingvallavegur er afar illa farinn með miklum holum og ójöfnum en til stendur að ráðast í endurbætur á veginum. Hvenær þær framkvæmdir hefjast liggur hins vegar ekki fyrir þar sem Landvernd kærði þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum til úrskurðarnefndar um umhverfis-og auðlindamál. Holóttur Þingvallavegur mun því enn um sinn taka á móti ferðalöngum sem fara um þjóðgarðinn.Jóna Bryndís Gestsdóttir er frá Selfossi en hefur búið á Laugarvatni í 37 ár. Frá árinu 1996 hefur hún rekið farfuglaheimilið í bænum.Vísir/sunnaÍbúar upplifa sig að einhverju leyti afskipta Jóna Bryndís Gestsdóttir hefur búið á Laugarvatni síðan árið 1981 og rekið farfuglaheimilið þar ásamt Gunnari Vilmundarsyni, eiginmanni sínum, síðan árið 1996. Hún segir samfélagið mikið hafa breyst með auknum ferðamannastraumi; hér áður fyrr hafi nándin verið mikil á meðal íbúa á Laugarvatni og allir svolítið eins og ein stór fjölskylda en það sé ekki endilega tilfellið í dag. „Og það er hvorki jákvætt né neikvætt heldur bara ágætt,“ segir Jóna. Sameiningin spilar líka inn í en eins og gengur og gerist eru íbúar Bláskógabyggðar misánægðir með hvernig til hefur tekist með hana á þeim sextán árum sem liðin eru frá því að hún tók gildi. Þannig upplifa sumir íbúar á Laugarvatni og í Laugarási sem Vísir ræddi við sig sem afskipta af hálfu sveitarstjórnarinnar og stjórnsýslunnar sem er að mestu leyti staðsett í Reykholti. Jóna segist hafa heyrt slíka umræðu, til dæmis að fólki finnist upplýsingagjöf frá sveitarfélaginu til íbúa ábótavant, en sjálf segist hún ekki finna fyrir því.„Neikvætt ef íbúarnir fá ekki húsnæði“ Spurð út í það hvaða málefni hún telji að brenni mest á íbúum í tengslum við kosningarnar nefnir hún samgöngumálin og húsnæðisskort sem hún hefur sjálf fundið fyrir þegar henni tókst ekki að finna íbúð fyrir starfsmann sinn. „Ég hef alltaf skaffað mínu fólki aðstöðu til að búa í. Það var hér ein sem var búin að vinna hjá mér í ellefu ár en svo kom barn og hún þurfti bara að fara í burtu því við fundum ekkert handa henni. Það er allt komið í Airbnb eða eitthvað slíkt. Ég veit ekki hvort það er neikvætt eða jákvætt en það er allavega neikvætt ef íbúarnir fá ekki húsnæði eins og í þessu tilfelli,“ segir Jóna.Þarf að bæta þjónustu við eldri borgara Jóna nefnir síðan þjónustu við eldri borgara sem hún segir að brenni líka á íbúum sveitarfélagsins. Ekkert hjúkrunarheimili er í Bláskógabyggð en dagvistun er á Selfossi og svo hjúkrunarheimili í Hveragerði og í Vík í Mýrdal. Tengdamóðir Jónu, sem verður 100 ára í janúar á næsta ári, býr á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði. Áður en hún komst þar að var Jónu sagt að eini möguleikinn á þjónustu væri dagvistunin á Selfossi. „Þannig að ég átti að keyra þessa gömlu konu fjörutíu kílómetra á dag fram og til baka í dagvistunina. Það var eini möguleikinn og þetta var alveg svakalegt mál,“ segir Jóna. Úr þessu þurfi að bæta.Daníel Pálsson er bóndi á Hjálmsstöðum í Bláskógabyggð.vísir/sunnaUnga fólkið að koma heim Daníel Pálsson er ungur kúabóndi á Hjálmsstöðum skammt frá Laugarvatni. Hann segir það sína upplifun að sín kynslóð, ungt fólk sem ólst upp á svæðinu, sé að koma til baka. Daníel telur ástæðuna vera meiri atvinnumöguleika; tölvan geri fólki kleift að vinna nánast við hvað sem er hvar sem er. Þá sé gott að vera iðnaðarmaður ef viðkomandi er staðsettur á Laugarvatni og það vantar iðnaðarmenn. Tækifærin séu þó vissulega mest í ferðaþjónustunni. Að mati Daníels þarf að vanda sig við það að láta heimamenn og ferðaþjónustubransann „fitta saman,“ eins og hann orðar það. „Maður heyrir svolítið að þetta sé að fara í þá áttina að menn séu alveg að verða saddir af þessum túrista. Ég held að það megi aðeins vanda sig í þessu því þetta er svo mikilvægt fyrir samfélagið okkar að þetta gangi saman. Það er fullt af flottum störfum í ferðaþjónustunni og þetta hefur orðið til þess að hér er til dæmis heilsársopnun hjá Fontana,“ segir Daníel en bætir við: „Auðvitað vill maður fá meira til baka frá ferðaþjónustunni. Þetta er alveg rosaleg traffík hjá okkur og breytt samfélag.“ Fontana á Laugarvatni. „Ég var ekki með fólk frá Kóreu á fjóshlaðinu hjá mér fyrir fimmtán árum“ Spurður út í að hvaða leyti samfélagið sé breytt nefnir Daníel botnlausa traffík ferðamanna nánast allan sólarhringinn, allt árið um kring. „Ég var ekki með fólk frá Kóreu á fjóshlaðinu hjá mér fyrir fimmtán árum. Ef það eru dýr hérna við veginn þá stoppa bílar alls staðar.“ Daníel nefnir þó að hann hafi gaman af því þegar útlenskir bændur sem eru hér á ferðalagi komi á hlaðið hjá honum til að forvitnast um bústörfin. „En þetta getur líka verið yfirgengilegt.“ Þá nefnir Daníel, líkt og Jóna Bryndís, húsnæðismálin sem hann segir eldheitt mál í sveitarfélaginu. Hann segir fasteignaverð brenglað út af Airbnb og segir húsnæði ekki fara í sölu þar sem fólk sé að halda því eftir sem sumarhúsum og/eða til að leigja það út til ferðamanna. „Þetta getur alveg farið saman en það þarf að stýra þessu. Það er grátlegt að flottustu eignirnar hér á Laugarvatni inni í byggðarkjarna séu að fara í útleigu. Það þarf að marka einhverja stefnu með þetta,“ segir Daníel.Lágmark að vegmerkingar séu í lagi Svo eru það samgöngumálin. Daníel lýsir vegunum sem handónýtum. „Þetta er allt handónýtt þessir vegir sem þú ert að keyra hérna. Það þarf til dæmis að hafa merkingar í lagi. Það eru engar merkingar og þá er bara allt íalgi að stoppa úti í kanti. Það má nú allavega reyna að halda merkingunum í lagi þannig að ferðamennirnir þekki það nú.“ Þá segir Daníel að eitt af forgangsmálunum í sveitarfélaginu ætti að vera að efla þjónustu við eldri borgara. Hann segir að mikið átak þurfi í þeim efnum og segir að sér finnist í raun ótrúlegt að maður fái ekki að verða gamall í sinni heimabyggð með sæmd. Jafnframt segir Daníel mikilvægt að halda í heilsugæsluna í Laugarási sem rekin er af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það sé þjónustustig sem þurfi að halda uppi og berjast fyrir. Sölvi Snæbjörnsson er hér með systrum sínum þremur, þeim Guðrúnu Karitas, Lindu Dögg og Höllu Rós, en saman reka þau Efsta-Dal II.Ferðaþjónustan gefi samfélaginu mikið Frá Hjálmsstöðum lá leiðin að Efsta-Dal II þar sem bekkjarbróðir Daníels úr grunnskólanum á Laugarvatni, Sölvi Snæbjörnsson, rekur kúabú og ferðaþjónustu ásamt þremur systrum sínum og fjölskyldum. Reksturinn er viðamikill þar sem fjörutíu kýr eru á bænum, hestaleiga, hótelgisting, ísvinnsla, veitingastaður og ísbúð. Alls eru um 12 til 15 heilsársstörf á bænum en Sölvi segir að starfsmönnum fjölgi mikið yfir sumartímann. Líkt og Jóna Bryndís og Daníel segir Sölvi að samfélagið hafi breyst mikið á skömmum tíma með uppgangi ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan gefi samfélaginu hins vegar mikið að hans mati og bendir hann til dæmis á að nú séu tíu veitingastaðir í Bláskógabyggð. Það er töluvert fyrir ekki stærra sveitarfélag.„Hver er að telja þegar þú ert kominn í 91 dag?“ Spurður út í sveitarstjórnarkosningar og það sem brennur á íbúum nefnir Sölvi ýmislegt. „Ef ég segi fyrir mitt leyti þá finnst vanta smá meiri ákvarðanatöku og stefnu til dæmis í sambandi við þróun byggðar. Við erum með þrjá þéttbýliskjarna, mikið af erlendu vinnuafli og við erum með fyrirtæki sem eru að kaupa upp hús í þorpunum okkar. Svo erum við með sumarbústaðabyggðir þar sem margir hverjir eru á fullu að starfa í Airbnb. Ég set spurningamerki við það hversu margir hafa leyfi fyrir slíkri starfsemi,“ segir Sölvi. Þannig segist hann alfarið á móti því að verið sé að leyfa lögheimili og atvinnustarfsemi í skipulagðri frístundabyggð, sem og 90 daga reglunni í tengslum við Airbnb. Í henni felst að leyfilegt er að leigja út íbúðarhúsnæði í 90 daga til ferðamanna en greiða af því skatta líkt og af leigutekjum en ekki atvinnurekstri. „Hver er að telja þegar þú ert kominn í 91 dag? Annað hvort ertu að reka gistingu eða ekki. Þú þarft að geta staðist öll skilyrði leyfa og að landið sem þú ert með starfsemina á sé skilgreint sem ferðaþjónustusvæði. Við þurfum bara að fara þangað. Það er það eina sem er sanngjarnt í stöðunni er að það sitji allir við sama borð,“ segir Sölvi.Þórdís Erla Ólafsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs, við skipið Skaftfelling sem er til sýnis í Vík í Mýrdal. 100 ára afmæli skipsins verður fagnað um hvítasunnuna.vísir/sunna35 prósent erlendir ríkisborgarar í Vík Eftir að hafa komið við í Laugarási, á veitingastaðnum Mika í Reykholti, kíkt á Geysi, þar sem var nóg af ferðamönnum í kuldanum um kvöldmatarleytið á miðvikudegi og gist á Hótel Gullfoss var ferðinni haldið austur úr á fimmtudeginum og í næsta sveitarfélag, Mýrdalshrepp. Það var ekki að sjá á tíðarfarinu að það væri kominn maí; það skiptust á skin og skúrir, slydda og snjókoma á leiðinni. Vík í Mýrdal er þéttbýliskjarninn í Mýrdalshreppi en í sveitarfélaginu öllu, sem er 755 ferkílómetrar að stærð, bjuggu 633 þann 1. janúar 2018. Þar af voru 35 prósent erlendir ríkisborgarar. Um leið og komið er inn í Vík er uppbyggingin í ferðaþjónustunni augljós þar sem verið er að byggja hótel og gistiheimili í bænum. Samkvæmt áætluðum tölum Ferðamálastofu er Vík fjórði fjölsóttasti ferðamannastaður landsins á eftir Þingvöllum, Gullfoss og Geysi. Í nágrenni bæjarins eru enda náttúruperlur á borð við Reynisfjöru og Dyrhólaey en ekki eru mörg ár síðan fólksfjöldi í Vík var í sögulegu lágmarki. Ferðaþjónustan hefur því verið mikilvæg fyrir vöxt samfélagsins en henni fylgja líka ýmsar áskoranir. Þannig eru gistirými í Vík um 1400 talsins sem er þó nokkuð mikið miðað við höfðatölu enda greip sveitarstjórnin til þess ráðs fyrir um tveimur árum að banna skammtímaleigu íbúða í Mýrdalshreppi. Þeir sem þó þegar höfðu leyfi fyrir slíkri starfsemi halda þeim til ársins 2022, leiti þeir eftir því. Á Kötlusetri í Vík hitti blaðamaður fyrir Þórdísi Erlu Ólafsdóttur, forstöðumanns setursins. Kötlusetur er miðstöð menningar, fræða og ferðamála og var stofnað árið 2010 af Háskólasamfélagi Suðurlands, Mýrdalshreppi og Menningarfélagi um Brydebúð.Ferðaþjónustan lífæð samfélagsins Þórdís starfar sem eins konar ferðamála- og menningarfulltrúi fyrir sveitarfélagið. Hún segist varla geta fylgst með öllum þeim nýju aðilum sem eru að taka til starfa í ferðaþjónustunni, bæði hvað varðar gistingu, afþreyingu og aðra þjónustu tengda ferðamanninum. Ferðaþjónustan sé lífæð samfélagsins. „Það er alltaf að bætast við þjónustuna en hún er svolítið einhæf. Þannig að það er fullt af tækifærum hérna hvað varðar sérhæfða þjónustu,“ segir Þórdís og nefnir til að taka dæmi að það sé enginn bókari í Vík og enginn snyrtifræðingur. Hún segir að það sé mjög gott að búa í Vík en það sé sinn draumur að þurfa ekki að fara neitt til að sækja sér þjónustu en í dag sæki hún sér ýmsa þjónustu bæði á Selfoss og til Reykjavíkur. Önnur dæmi sem hún nefnir er hárgreiðslustofan sem sé opin tvisvar í viku og svo apótekið sem sé bara opið til 13. „Eins og apótek sem væri opið frá tíu til sex væri alveg yndislegt og það myndi alveg reka sig,“ segir Þórdís. Þórdís nefnir svo líka félagslega þáttinn og menninguna sem á ekki bara að vera fyrir ferðamanninn heldur líka íbúa í bænum. „Þegar það er mikið að gera í ferðaþjónustunni og fólk mikið að vinna þá gleymist oft þetta félagslega og þessi menningarhluti hann á það til gleymast. Hlutverk okkar er svolítið að hífa það upp,“ segir Þórdís og nefnir í þessu sambandi lista-og menningarhátíðina Regnbogann sem haldin er á hverju ári og ljósmyndasýningu sem opnaði fyrir skömmu.Kötlusetur er til húsa í Brydebúð í Vík sem er eitt elsta hús á Suðurlandi.vísir/sunnaVík verði fyrirmyndarferðamannastaður Aðspurð hvað hún telji að brenni á fólki vegna sveitarstjórnarkosninganna nefnir hún skólamálin; það vanti starfsfólk á leikskólann og í skólann. Svo er það sérhæfða þjónustan auk þess sem Þórdís leggur mikla áherslu á að Vík og Mýrdalshreppur eigi að vera fyrirmyndarferðamannastaður. Þá þurfi grunnþjónustan að vera í lagi og nefnir hún til dæmis heilsugæsluna þar sem aðeins einn læknir er á vakt sem sinnir líka Kirkjubæjarklaustri. Þórdís segir það svo áskorun fyrir sveitarfélagið að fá betra aðgengi að heitu vatni. Nú sé aðgangur að einni borholu og aðgengið að heitu vatni hafi verið erfitt vegna sundlaugarinnar. „Og þú verður að vera með góða sundlaug á fyrirmyndarferðamannastað,“ segir Þórdís. Í tengslum við fyrirmyndarferðamannastaðinn nefnir hún líka að það þurfi að hlúa að umhverfinu í Vík; passa að hafa bæinn snyrtilegan og sinna viðhaldi til dæmis á gatnakerfinu. Það sé eitthvað sem þurfi að vera í lagi.Mælir ekki með Vík fyrir ungt fólk Annar viðmælandi blaðamanns í Mýrdalsheppi er hinn nítján ára Ástþór Jón Tryggvason, fæddur og uppalinn í Vík. Hann var ekki kominn í framboð þegar blaðamaður settist niður með honum í síðustu viku en skipar nú 4. sæti á Lista framtíðarinnar. Ástþór starfar sem yfirþjálfari hjá Ungmennafélaginu Kötlu, sér þar um frjálsíþróttadeildina og íþróttaskóla yngstu barnanna. Sem ungum manni er Ástþóri annt um að gera Vík að aðlaðandi stað fyrir ungt fólk til að búa á. Honum þykir vænt um heimabæinn en að hans mati er margt sem þarf að gera þar miklu betur. Aðspurður segist hann í hreinskilni sagt ekki geta mælt með því fyrir ungt fólk að flytja í Vík en hann kjósi að búa þar vegna þess að þetta sé bærinn hans og fjölskyldan hans sé þar. Ástþór segir núverandi meirihluta í sveitarstjórn hafa gert margt gott á þeim átta árum sem hann hafi verið við völd en á meðan uppbyggingin í ferðaþjónustunni hafi verið hröð hafi íbúar með fasta búsetu gleymst. „Það hefur orðið gríðarlega mikil uppbygging í ferðaþjónustunni, það er meira framboð af íbúðarhúsnæði, meira af fyrirtækjum hér, meiri ferðamannaiðnaður og meiri umferð um svæðið. En á sama tíma hefur samfélagið gleymst, fólkið og innviðirnir hafa gleymst,“ segir Ástþór.Ástþór Jón Tryggvason er 19 ára gamall Mýrdælingur, fæddur og uppalinn í Vík. Hann vill setjast að í bænum en segir margt þurfa að bæta þegar kemur að þjónustu við ungt fólk og barnafjölskyldur.vísir/sunnaFólkið hefur gleymst Hann nefnir leikskólamálin þar sem hann segir leikskólann ekki fullmannaðan og börn séu því á biðlista. Þá sé leikskólinn að hans mati í óhentugu húsnæði og myndi hann vija byggja nýjan leikskóla. „Svo erum við hér með íþróttamannvirki, eins og íþróttahús og sundlaug þar sem ekki er sinn eðlilegu viðhaldi og mannvirkin liggja undir skemmdum,“ segir Ástþór og bætir við að Ungmennafélagið Katla hafi ekki löglegan keppnisvöll í sumar því ekki hafi verið settur peningur í völlinn í sjö ár. „Þú þarft síðan ekki annað en að taka rúntinn hér um sveitarfélagið til að sjá að það er meira og minna búið að brotna upp úr öllum gangstéttum. Eins og segi, þá hefur samfélagið og fólkið svolítið gleymst sem mér finnst svolítið sárt.“ Ástþór nefnir sérstaklega stöðu æskulýðs-og tómstundafulltrúa sem var lögð niður hjá sveitarfélaginu á sínum tíma. Hann segir að samþykkt hafi verið að auglýsa hana á ný og telur hann nauðsynlegt að ráða í þá stöðu til að bæta til dæmis þjónustu við ungt fólk.Krökkt af ferðamönnum á Hala í Suðursveit Eftir að hafa stoppað í Vík kom blaðamaður við á Kirkjubæjarklaustri og brunaði svo á Hala í Suðursveit í sveitarfélaginu Hornafirði þar sem gist var um nóttina. Þar var allt krökkt af erlendum ferðamönnum, að minnsta kosti ef marka má fjöldann á veitingastaðnum um kvöldið og morguninn. Blaðamaður náði ekki inn í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, Höfn, þar sem stefnan var sett á Skaftafell daginn eftir. Sveitarfélagið er víðfeðmt; telur 6.280 ferkílómetra. Íbúar í sveitarfélaginu voru 2.306 talsins þann 1. janúar 2018 og þar af vour 17 prósent erlendir ríkisborgarar. Í Skaftafelli settist blaðamaður niður með þeim Regínu Hreinsdóttur, þjóðgarðsverði, og Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, starfsmanni þjóðgarðsins. Hún er fædd og uppalin á Fagurhólsmýri í Öræfum, þar sem hún býr enn, og er nú í framboði til sveitarstjórnar; skipar 2. sætið á lista 3. framboðsins. Þar sem þær búa og starfa báðar í Öræfum tók spjall þeirra og blaðamanns um sveitarstjórnarkosningar nokkuð mið af því.Þær Regína Hreinsdóttir og Sigrún Sigurgeirsdóttir, starfsmenn þjóðgarðsins í Skaftafelli og íbúar í Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði.vísir/sunnaLandbúnaður og árstíðabundin störf hér áður fyrr Sigrún segir samfélagið hafa breyst gríðarlega mikið frá því að hún var að alast upp í Öræfum. Þá var landbúnaður aðalatvinnugreinin en fólk fór líka og sinnti árstíðabundnum störfum, til dæmis í sláturhúsinu og sjómennskunni. Í dag séu hins vegar flest störf orðin heilsársstörf, líka í ferðaþjónustunni, sem hafi ekki verið raunin fyrir fáeinum árum. Búum hafi fækkað í Öræfum en þessi breyting á ekki bara við um sveitina þar heldur sveitir um allt land að sögn Sigrúnar. Regína hefur búið í Öræfum og starfað sem þjóðgarðsvörður í Skaftafelli í tíu ár. Breytingin sem hún tekur eftir er á kjarnasamfélaginu í sveitinni. „Maður þekkir þennan kjarna en svo kemur hingað vinnuafl í ferðaþjónustuna sem býr hérna oft í styttri tíma. Það eru ekki margir sem hafa bæst við þennan fasta kjarna sem býr hérna allta. Það hefur orðið smá endurnýjun en það hefur fækkað í þessum kjarna,” segir Regína og bendir á að þeir sem flytji í sveitina séu þá aðallega að koma til að starfa í ferðaþjónustunni en síður í landbúnaðinum.Þarf að passa að það myndist ekki tvö samfélög „Alls staðar í þessu sveitarfélagi er þessi mikla ferðamannaaukning. Þetta er gjörbreyting á fáum árum og því fylgja líka mjög margir íbúar sem eiga lögheimili hérna sem eru að vinna við ferðaþjónustuna. Maður þarf pínulítið að passa að það myndist ekki tvö samfélög hérna. Við þurfum að reyna að hjálpa þessum nýju íbúum að tengjast samfélaginu,“ segir Sigrún en líkt og annars staðar á Suðurlandi þar sem blaðamaður kom við er mikið af erlendu vinnuafli sem starfar í ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu Hornafirði. Þá nefnir Regína samgöngumálin sem mál sem brenni á íbúum. Lengi hafi staðið til að færa hringveginn neðar sem liggur um sveitir Öræfa en framkvæmdin ítrekað frestast. Regína segir að með því að færa veginn myndi umferðaröryggi aukast til muna. Mikil umferð sé nú á veginum og mikið af einbreiðum brúm sem séu stórhættulegar. Undir það getur blaðamaður tekið og minnist kannski sérstaklega einbreiðu brúarinnar við Jökulsárlón, þann fjölsótta ferðamannastað. Má í raun segja að ótrúlegt sé að ekki sé búið að bæta hana miðað við allan þann fjölda sem þar fer um. Regína segir jafnframt að bændur þurfi að þvera veginn til að komast á tún. Hún segir því færslu á hringveginum mikilvæga fyrir Öræfin. Brúin við Jökulsárlón. Húsnæðismálin, heilbrigðisþjónusta og betra skipulag í ferðaþjónustunni Önnur málefni sem þær tæpa á eru húsnæðismálin, það er skortur á húsnæði, og svo betra skipulag í ferðaþjónustunni. „Það þarf betra skipulag í kringum ferðaþjónustuna og betri stýringar, ekki bara hér heldur um allt land. Þetta verður stundum algjört gullgrafaraæði þegar allir ætla að fara inn í sama hellinn á sama tímanum. Þetta er stór áskorun og mikilvæg. Húsnæðismálin eru önnur áskorun og svo þetta að samþætta þessa nýju íbúa sem koma hingað til að vinna í ferðaþjónustunni. Þeir eru margir mjög áhugasamir að kynnast líka sögu og menningu en hafa fá tækifæri til þess. Það þarf að skapa vettvang þar sem menn geta komið saman,“ segir Sigrún. Auk þessa nefnir Regína heilbrigðisþjónustuna en íbúar í Öræfum sækja slíka þjónustu til Hafnar þar sem er heilsugæsla. Ferðamannastraumurinn á svæðinu sé hins vegar svo mikill yfir sumartímann en einnig líka yfir vetrartímann að hjúkrunarfræðing þurfi í Öræfin. Regína bendir á allan þann fjölda sem fari um svæðið og segir að einn dag í febrúar síðastliðnum hafi 3.800 manns komið í gestastofuna í Skaftafelli. Það séu fleiri en búa á Höfn og ekki komi allir sem heimsækja þjóðgarðinn í gestastofuna. Eins og sagði í upphafi greinarinnar heimsótti blaðamaður þrjú af fimmtán sveitarfélögum á Suðurlandi. Af nógu var að taka þó ekki væri farið á fleiri staði en rauði þráðurinn í viðtölum og spjalli við íbúa var ferðaþjónustan og öll þau tækifæri og áskoranir fyrir sveitarfélögin sem fylgja henni. Í öllum sveitarfélögunum er vissulega önnur atvinnustarfsemi, til að mynda gróðurhúsarækt í Bláskógabyggð og sjávarútvegur á Höfn, en ferðaþjónustan er að miklu leyti orðin lífæð samfélaga á Suðurlandi sem eitt sinn voru landbúnaðarhéruð.Landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí. Vísir kemur við víða um land í aðdraganda kosninganna. Á mánudaginn er komið að Vestmannaeyjum. Fréttaskýringar Kosningar 2018 Tengdar fréttir Holóttar götur, atvinnuskortur kvenna og hækkun fasteignaverðs í huga Skagamanna Þó Skagamenn séu heilt yfir frekar afslappaðir fyrir kosningarnar eru nokkur málefni sem krauma undir yfirborðinu. 7. maí 2018 08:45 „Um leið og það kemur hálka þá fer ég ekki yfir“ Blaðamaður Vísis kom víða við á þriggja daga ferð sinni um Austurland í lok apríl síðastliðnum og ræddi við fjölda fólks um helstu málin í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. 8. maí 2018 10:00 Ósýnilegir frambjóðendur, au pair-sprengja og læknaskortur Blaðamaður Vísis kom víða við í heimsókn sinni á Reykjanes á dögunum og ræddi við íbúana um helstu málin í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. 9. maí 2018 14:00 Mest lesið Leynilega upptakan á Edition-hótelinu:„Ef ég á að taka fimmta sætið vil ég verða þinn maður í þessu“ Innlent „Leið eins og ég hefði verið kýld í magann þegar ég las þetta“ Innlent „Nei, Áslaug Arna“ Innlent Lögreglan leitar að Óla Erni Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent „Berum ekki ábyrgð á því sem að fólk segir úti í bæ“ Innlent Grænlendingar fá Erling til að gera Grænland grænna Innlent Femínistar ævareiðir út í Þórð Snæ Innlent Margeir stefnir ríkinu Innlent Eftirlýstur frambjóðandi dregur sig í hlé Innlent
Mikill uppgangur í ferðaþjónustu með tilheyrandi samfélagsbreytingum er einkennandi fyrir þau sveitarfélög sem blaðamaður Vísis heimsótti á Suðurlandi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem verða þann 26. maí. Fimmtán sveitarfélög eru á Suðurlandi en blaðamaður ræddi við íbúa í Bláskógabyggð, Mýrdalshreppi og sveitarfélaginu Hornafirði um kosningarnar og þau málefni sem brenna á fólki vegna þeirra á ferð sinni um landshlutann í byrjun maí.Sérstaða Bláskógabyggðar Blaðamaður hóf ferð sína á sólríkum en köldum miðvikudegi í Bláskógabyggð sem hefur ákveðna sérstöðu á meðal sveitarfélaga á Suðurlandi. Sérstaðan felst helst í því að þar eru þrír fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins: Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Gullfoss og Geysir eða hinn svokallaði Gullni hringur. Einnig eru mörg sumarhús í sveitarfélaginu og breytist það nánast í eitt stykki Kópavog yfir sumartímann og um helgar á veturna, eins og einn viðmælandi Vísis orðaði það. Sveitarfélagið varð til árið 2002 við sameiningu þriggja hreppa, það er Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Sveitarfélagið er 3300 ferkílómetrar að stærð og þar bjuggu 1115 manns þann 1. janúar síðastliðinn samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands. 23 prósent íbúanna eru með erlent ríkisfang. Þrír þéttbýliskjarnar eru í Bláskógabyggð; Laugarvatn, Laugarás og Reykholt. Tveir grunnskólar eru í sveitarfélaginu, annars vegar á Laugarvatni og hins vegar í Reykholti. Þá er menntaskóli á Laugarvatni. Matvöruverslanir eru í Reykholti og á Laugarvatni en heilsugæslan í Laugarási. Bæjarskrifstofurnar eru síðan í Reykholti en byggingarfulltrúinn er með aðsetur á Laugarvatni.Einar Á. E. Sæmundsen er þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og íbúi í Reykholti í Bláskógabyggð.vísir/sunnaÁskorun að stýra sveitarfélagi þegar einn sterkur atvinnuvegur kemur inn Einar Á. E. Sæmundsen er þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og íbúi í Reykholti. Hann segir ferðaþjónustuna hafa haft gríðarleg áhrif á allt samfélagið en þunginn í henni hafi aðallega komið fram á síðustu tíu árum. „Og það má segja að það sé heilmikil áskorun að stjórna sveitarfélagi við slíkar aðstæður þar sem það kemur einn svona sterkur atvinnuvegur inn og tekur svolítið yfir hefðbundnari landnotkun eins og landbúnað,” segir Einar. Hann segir mikil tækifæri koma með ferðaþjónustunni og að henni fylgi mikil nýsköpun en að hún hafi einnig áhrif. Nefnir Einar húsnæðismálin í því samhengi þar sem uppbygging húsnæðis sé ein af áskorununum sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar standi frammi fyrir. Ferðamenn á Þingvöllum. „Verða kannski til svolitlar verbúðir í sumum húsum“ Húsnæði sé eftirsóknarvert þar sem ferðaþjónustufyrirtæki þurfi húsnæði fyrir starfsmenn sína sem eru gjarnan erlendir ríkisborgarar og koma til að vinna í stuttan tíma. „Þannig að það verða kannski til svolitlar verbúðir í sumum húsum,“ segir Einar. Þá eru samgöngumálin í brennidepli þar sem vegirnir séu að grotna niður. Einar vill að vegurinn um Gullna hringinn verði betur skilgreindur sem ferðamannavegur og þar með ústýnisvegur þar sem hann telji að um 90 prósent þeirra sem fari um veginn séu erlendir ferðamenn. „Ég hef velt því fyrir mér að það þurfi að skilgreina þessa leið betur í skipulagi sem einn mikilvægasta ferðamannaveg landsins, til dæmis upp á það að bæta útsýnisstaði og þar með upplifun þeirra sem hér aka,“ segir Einar. Hann bætir við að eitt af því sem fylgi auknum ferðamannastraumi séu ferðamenn sem stöðvi alls staðar á vegum. Það sé mál sem þurfi að leysa og lausnin gæti falist í fleiri útsýnisstöðum við veginn.Holóttur Þingvallavegur enn um sinn Frá Þingvöllum lá leið blaðamanns á Laugarvatn og var þá ekið eftir Þingvallavegi og yfir Lyngdalsheiðina. Þingvallavegur er afar illa farinn með miklum holum og ójöfnum en til stendur að ráðast í endurbætur á veginum. Hvenær þær framkvæmdir hefjast liggur hins vegar ekki fyrir þar sem Landvernd kærði þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum til úrskurðarnefndar um umhverfis-og auðlindamál. Holóttur Þingvallavegur mun því enn um sinn taka á móti ferðalöngum sem fara um þjóðgarðinn.Jóna Bryndís Gestsdóttir er frá Selfossi en hefur búið á Laugarvatni í 37 ár. Frá árinu 1996 hefur hún rekið farfuglaheimilið í bænum.Vísir/sunnaÍbúar upplifa sig að einhverju leyti afskipta Jóna Bryndís Gestsdóttir hefur búið á Laugarvatni síðan árið 1981 og rekið farfuglaheimilið þar ásamt Gunnari Vilmundarsyni, eiginmanni sínum, síðan árið 1996. Hún segir samfélagið mikið hafa breyst með auknum ferðamannastraumi; hér áður fyrr hafi nándin verið mikil á meðal íbúa á Laugarvatni og allir svolítið eins og ein stór fjölskylda en það sé ekki endilega tilfellið í dag. „Og það er hvorki jákvætt né neikvætt heldur bara ágætt,“ segir Jóna. Sameiningin spilar líka inn í en eins og gengur og gerist eru íbúar Bláskógabyggðar misánægðir með hvernig til hefur tekist með hana á þeim sextán árum sem liðin eru frá því að hún tók gildi. Þannig upplifa sumir íbúar á Laugarvatni og í Laugarási sem Vísir ræddi við sig sem afskipta af hálfu sveitarstjórnarinnar og stjórnsýslunnar sem er að mestu leyti staðsett í Reykholti. Jóna segist hafa heyrt slíka umræðu, til dæmis að fólki finnist upplýsingagjöf frá sveitarfélaginu til íbúa ábótavant, en sjálf segist hún ekki finna fyrir því.„Neikvætt ef íbúarnir fá ekki húsnæði“ Spurð út í það hvaða málefni hún telji að brenni mest á íbúum í tengslum við kosningarnar nefnir hún samgöngumálin og húsnæðisskort sem hún hefur sjálf fundið fyrir þegar henni tókst ekki að finna íbúð fyrir starfsmann sinn. „Ég hef alltaf skaffað mínu fólki aðstöðu til að búa í. Það var hér ein sem var búin að vinna hjá mér í ellefu ár en svo kom barn og hún þurfti bara að fara í burtu því við fundum ekkert handa henni. Það er allt komið í Airbnb eða eitthvað slíkt. Ég veit ekki hvort það er neikvætt eða jákvætt en það er allavega neikvætt ef íbúarnir fá ekki húsnæði eins og í þessu tilfelli,“ segir Jóna.Þarf að bæta þjónustu við eldri borgara Jóna nefnir síðan þjónustu við eldri borgara sem hún segir að brenni líka á íbúum sveitarfélagsins. Ekkert hjúkrunarheimili er í Bláskógabyggð en dagvistun er á Selfossi og svo hjúkrunarheimili í Hveragerði og í Vík í Mýrdal. Tengdamóðir Jónu, sem verður 100 ára í janúar á næsta ári, býr á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði. Áður en hún komst þar að var Jónu sagt að eini möguleikinn á þjónustu væri dagvistunin á Selfossi. „Þannig að ég átti að keyra þessa gömlu konu fjörutíu kílómetra á dag fram og til baka í dagvistunina. Það var eini möguleikinn og þetta var alveg svakalegt mál,“ segir Jóna. Úr þessu þurfi að bæta.Daníel Pálsson er bóndi á Hjálmsstöðum í Bláskógabyggð.vísir/sunnaUnga fólkið að koma heim Daníel Pálsson er ungur kúabóndi á Hjálmsstöðum skammt frá Laugarvatni. Hann segir það sína upplifun að sín kynslóð, ungt fólk sem ólst upp á svæðinu, sé að koma til baka. Daníel telur ástæðuna vera meiri atvinnumöguleika; tölvan geri fólki kleift að vinna nánast við hvað sem er hvar sem er. Þá sé gott að vera iðnaðarmaður ef viðkomandi er staðsettur á Laugarvatni og það vantar iðnaðarmenn. Tækifærin séu þó vissulega mest í ferðaþjónustunni. Að mati Daníels þarf að vanda sig við það að láta heimamenn og ferðaþjónustubransann „fitta saman,“ eins og hann orðar það. „Maður heyrir svolítið að þetta sé að fara í þá áttina að menn séu alveg að verða saddir af þessum túrista. Ég held að það megi aðeins vanda sig í þessu því þetta er svo mikilvægt fyrir samfélagið okkar að þetta gangi saman. Það er fullt af flottum störfum í ferðaþjónustunni og þetta hefur orðið til þess að hér er til dæmis heilsársopnun hjá Fontana,“ segir Daníel en bætir við: „Auðvitað vill maður fá meira til baka frá ferðaþjónustunni. Þetta er alveg rosaleg traffík hjá okkur og breytt samfélag.“ Fontana á Laugarvatni. „Ég var ekki með fólk frá Kóreu á fjóshlaðinu hjá mér fyrir fimmtán árum“ Spurður út í að hvaða leyti samfélagið sé breytt nefnir Daníel botnlausa traffík ferðamanna nánast allan sólarhringinn, allt árið um kring. „Ég var ekki með fólk frá Kóreu á fjóshlaðinu hjá mér fyrir fimmtán árum. Ef það eru dýr hérna við veginn þá stoppa bílar alls staðar.“ Daníel nefnir þó að hann hafi gaman af því þegar útlenskir bændur sem eru hér á ferðalagi komi á hlaðið hjá honum til að forvitnast um bústörfin. „En þetta getur líka verið yfirgengilegt.“ Þá nefnir Daníel, líkt og Jóna Bryndís, húsnæðismálin sem hann segir eldheitt mál í sveitarfélaginu. Hann segir fasteignaverð brenglað út af Airbnb og segir húsnæði ekki fara í sölu þar sem fólk sé að halda því eftir sem sumarhúsum og/eða til að leigja það út til ferðamanna. „Þetta getur alveg farið saman en það þarf að stýra þessu. Það er grátlegt að flottustu eignirnar hér á Laugarvatni inni í byggðarkjarna séu að fara í útleigu. Það þarf að marka einhverja stefnu með þetta,“ segir Daníel.Lágmark að vegmerkingar séu í lagi Svo eru það samgöngumálin. Daníel lýsir vegunum sem handónýtum. „Þetta er allt handónýtt þessir vegir sem þú ert að keyra hérna. Það þarf til dæmis að hafa merkingar í lagi. Það eru engar merkingar og þá er bara allt íalgi að stoppa úti í kanti. Það má nú allavega reyna að halda merkingunum í lagi þannig að ferðamennirnir þekki það nú.“ Þá segir Daníel að eitt af forgangsmálunum í sveitarfélaginu ætti að vera að efla þjónustu við eldri borgara. Hann segir að mikið átak þurfi í þeim efnum og segir að sér finnist í raun ótrúlegt að maður fái ekki að verða gamall í sinni heimabyggð með sæmd. Jafnframt segir Daníel mikilvægt að halda í heilsugæsluna í Laugarási sem rekin er af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það sé þjónustustig sem þurfi að halda uppi og berjast fyrir. Sölvi Snæbjörnsson er hér með systrum sínum þremur, þeim Guðrúnu Karitas, Lindu Dögg og Höllu Rós, en saman reka þau Efsta-Dal II.Ferðaþjónustan gefi samfélaginu mikið Frá Hjálmsstöðum lá leiðin að Efsta-Dal II þar sem bekkjarbróðir Daníels úr grunnskólanum á Laugarvatni, Sölvi Snæbjörnsson, rekur kúabú og ferðaþjónustu ásamt þremur systrum sínum og fjölskyldum. Reksturinn er viðamikill þar sem fjörutíu kýr eru á bænum, hestaleiga, hótelgisting, ísvinnsla, veitingastaður og ísbúð. Alls eru um 12 til 15 heilsársstörf á bænum en Sölvi segir að starfsmönnum fjölgi mikið yfir sumartímann. Líkt og Jóna Bryndís og Daníel segir Sölvi að samfélagið hafi breyst mikið á skömmum tíma með uppgangi ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan gefi samfélaginu hins vegar mikið að hans mati og bendir hann til dæmis á að nú séu tíu veitingastaðir í Bláskógabyggð. Það er töluvert fyrir ekki stærra sveitarfélag.„Hver er að telja þegar þú ert kominn í 91 dag?“ Spurður út í sveitarstjórnarkosningar og það sem brennur á íbúum nefnir Sölvi ýmislegt. „Ef ég segi fyrir mitt leyti þá finnst vanta smá meiri ákvarðanatöku og stefnu til dæmis í sambandi við þróun byggðar. Við erum með þrjá þéttbýliskjarna, mikið af erlendu vinnuafli og við erum með fyrirtæki sem eru að kaupa upp hús í þorpunum okkar. Svo erum við með sumarbústaðabyggðir þar sem margir hverjir eru á fullu að starfa í Airbnb. Ég set spurningamerki við það hversu margir hafa leyfi fyrir slíkri starfsemi,“ segir Sölvi. Þannig segist hann alfarið á móti því að verið sé að leyfa lögheimili og atvinnustarfsemi í skipulagðri frístundabyggð, sem og 90 daga reglunni í tengslum við Airbnb. Í henni felst að leyfilegt er að leigja út íbúðarhúsnæði í 90 daga til ferðamanna en greiða af því skatta líkt og af leigutekjum en ekki atvinnurekstri. „Hver er að telja þegar þú ert kominn í 91 dag? Annað hvort ertu að reka gistingu eða ekki. Þú þarft að geta staðist öll skilyrði leyfa og að landið sem þú ert með starfsemina á sé skilgreint sem ferðaþjónustusvæði. Við þurfum bara að fara þangað. Það er það eina sem er sanngjarnt í stöðunni er að það sitji allir við sama borð,“ segir Sölvi.Þórdís Erla Ólafsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs, við skipið Skaftfelling sem er til sýnis í Vík í Mýrdal. 100 ára afmæli skipsins verður fagnað um hvítasunnuna.vísir/sunna35 prósent erlendir ríkisborgarar í Vík Eftir að hafa komið við í Laugarási, á veitingastaðnum Mika í Reykholti, kíkt á Geysi, þar sem var nóg af ferðamönnum í kuldanum um kvöldmatarleytið á miðvikudegi og gist á Hótel Gullfoss var ferðinni haldið austur úr á fimmtudeginum og í næsta sveitarfélag, Mýrdalshrepp. Það var ekki að sjá á tíðarfarinu að það væri kominn maí; það skiptust á skin og skúrir, slydda og snjókoma á leiðinni. Vík í Mýrdal er þéttbýliskjarninn í Mýrdalshreppi en í sveitarfélaginu öllu, sem er 755 ferkílómetrar að stærð, bjuggu 633 þann 1. janúar 2018. Þar af voru 35 prósent erlendir ríkisborgarar. Um leið og komið er inn í Vík er uppbyggingin í ferðaþjónustunni augljós þar sem verið er að byggja hótel og gistiheimili í bænum. Samkvæmt áætluðum tölum Ferðamálastofu er Vík fjórði fjölsóttasti ferðamannastaður landsins á eftir Þingvöllum, Gullfoss og Geysi. Í nágrenni bæjarins eru enda náttúruperlur á borð við Reynisfjöru og Dyrhólaey en ekki eru mörg ár síðan fólksfjöldi í Vík var í sögulegu lágmarki. Ferðaþjónustan hefur því verið mikilvæg fyrir vöxt samfélagsins en henni fylgja líka ýmsar áskoranir. Þannig eru gistirými í Vík um 1400 talsins sem er þó nokkuð mikið miðað við höfðatölu enda greip sveitarstjórnin til þess ráðs fyrir um tveimur árum að banna skammtímaleigu íbúða í Mýrdalshreppi. Þeir sem þó þegar höfðu leyfi fyrir slíkri starfsemi halda þeim til ársins 2022, leiti þeir eftir því. Á Kötlusetri í Vík hitti blaðamaður fyrir Þórdísi Erlu Ólafsdóttur, forstöðumanns setursins. Kötlusetur er miðstöð menningar, fræða og ferðamála og var stofnað árið 2010 af Háskólasamfélagi Suðurlands, Mýrdalshreppi og Menningarfélagi um Brydebúð.Ferðaþjónustan lífæð samfélagsins Þórdís starfar sem eins konar ferðamála- og menningarfulltrúi fyrir sveitarfélagið. Hún segist varla geta fylgst með öllum þeim nýju aðilum sem eru að taka til starfa í ferðaþjónustunni, bæði hvað varðar gistingu, afþreyingu og aðra þjónustu tengda ferðamanninum. Ferðaþjónustan sé lífæð samfélagsins. „Það er alltaf að bætast við þjónustuna en hún er svolítið einhæf. Þannig að það er fullt af tækifærum hérna hvað varðar sérhæfða þjónustu,“ segir Þórdís og nefnir til að taka dæmi að það sé enginn bókari í Vík og enginn snyrtifræðingur. Hún segir að það sé mjög gott að búa í Vík en það sé sinn draumur að þurfa ekki að fara neitt til að sækja sér þjónustu en í dag sæki hún sér ýmsa þjónustu bæði á Selfoss og til Reykjavíkur. Önnur dæmi sem hún nefnir er hárgreiðslustofan sem sé opin tvisvar í viku og svo apótekið sem sé bara opið til 13. „Eins og apótek sem væri opið frá tíu til sex væri alveg yndislegt og það myndi alveg reka sig,“ segir Þórdís. Þórdís nefnir svo líka félagslega þáttinn og menninguna sem á ekki bara að vera fyrir ferðamanninn heldur líka íbúa í bænum. „Þegar það er mikið að gera í ferðaþjónustunni og fólk mikið að vinna þá gleymist oft þetta félagslega og þessi menningarhluti hann á það til gleymast. Hlutverk okkar er svolítið að hífa það upp,“ segir Þórdís og nefnir í þessu sambandi lista-og menningarhátíðina Regnbogann sem haldin er á hverju ári og ljósmyndasýningu sem opnaði fyrir skömmu.Kötlusetur er til húsa í Brydebúð í Vík sem er eitt elsta hús á Suðurlandi.vísir/sunnaVík verði fyrirmyndarferðamannastaður Aðspurð hvað hún telji að brenni á fólki vegna sveitarstjórnarkosninganna nefnir hún skólamálin; það vanti starfsfólk á leikskólann og í skólann. Svo er það sérhæfða þjónustan auk þess sem Þórdís leggur mikla áherslu á að Vík og Mýrdalshreppur eigi að vera fyrirmyndarferðamannastaður. Þá þurfi grunnþjónustan að vera í lagi og nefnir hún til dæmis heilsugæsluna þar sem aðeins einn læknir er á vakt sem sinnir líka Kirkjubæjarklaustri. Þórdís segir það svo áskorun fyrir sveitarfélagið að fá betra aðgengi að heitu vatni. Nú sé aðgangur að einni borholu og aðgengið að heitu vatni hafi verið erfitt vegna sundlaugarinnar. „Og þú verður að vera með góða sundlaug á fyrirmyndarferðamannastað,“ segir Þórdís. Í tengslum við fyrirmyndarferðamannastaðinn nefnir hún líka að það þurfi að hlúa að umhverfinu í Vík; passa að hafa bæinn snyrtilegan og sinna viðhaldi til dæmis á gatnakerfinu. Það sé eitthvað sem þurfi að vera í lagi.Mælir ekki með Vík fyrir ungt fólk Annar viðmælandi blaðamanns í Mýrdalsheppi er hinn nítján ára Ástþór Jón Tryggvason, fæddur og uppalinn í Vík. Hann var ekki kominn í framboð þegar blaðamaður settist niður með honum í síðustu viku en skipar nú 4. sæti á Lista framtíðarinnar. Ástþór starfar sem yfirþjálfari hjá Ungmennafélaginu Kötlu, sér þar um frjálsíþróttadeildina og íþróttaskóla yngstu barnanna. Sem ungum manni er Ástþóri annt um að gera Vík að aðlaðandi stað fyrir ungt fólk til að búa á. Honum þykir vænt um heimabæinn en að hans mati er margt sem þarf að gera þar miklu betur. Aðspurður segist hann í hreinskilni sagt ekki geta mælt með því fyrir ungt fólk að flytja í Vík en hann kjósi að búa þar vegna þess að þetta sé bærinn hans og fjölskyldan hans sé þar. Ástþór segir núverandi meirihluta í sveitarstjórn hafa gert margt gott á þeim átta árum sem hann hafi verið við völd en á meðan uppbyggingin í ferðaþjónustunni hafi verið hröð hafi íbúar með fasta búsetu gleymst. „Það hefur orðið gríðarlega mikil uppbygging í ferðaþjónustunni, það er meira framboð af íbúðarhúsnæði, meira af fyrirtækjum hér, meiri ferðamannaiðnaður og meiri umferð um svæðið. En á sama tíma hefur samfélagið gleymst, fólkið og innviðirnir hafa gleymst,“ segir Ástþór.Ástþór Jón Tryggvason er 19 ára gamall Mýrdælingur, fæddur og uppalinn í Vík. Hann vill setjast að í bænum en segir margt þurfa að bæta þegar kemur að þjónustu við ungt fólk og barnafjölskyldur.vísir/sunnaFólkið hefur gleymst Hann nefnir leikskólamálin þar sem hann segir leikskólann ekki fullmannaðan og börn séu því á biðlista. Þá sé leikskólinn að hans mati í óhentugu húsnæði og myndi hann vija byggja nýjan leikskóla. „Svo erum við hér með íþróttamannvirki, eins og íþróttahús og sundlaug þar sem ekki er sinn eðlilegu viðhaldi og mannvirkin liggja undir skemmdum,“ segir Ástþór og bætir við að Ungmennafélagið Katla hafi ekki löglegan keppnisvöll í sumar því ekki hafi verið settur peningur í völlinn í sjö ár. „Þú þarft síðan ekki annað en að taka rúntinn hér um sveitarfélagið til að sjá að það er meira og minna búið að brotna upp úr öllum gangstéttum. Eins og segi, þá hefur samfélagið og fólkið svolítið gleymst sem mér finnst svolítið sárt.“ Ástþór nefnir sérstaklega stöðu æskulýðs-og tómstundafulltrúa sem var lögð niður hjá sveitarfélaginu á sínum tíma. Hann segir að samþykkt hafi verið að auglýsa hana á ný og telur hann nauðsynlegt að ráða í þá stöðu til að bæta til dæmis þjónustu við ungt fólk.Krökkt af ferðamönnum á Hala í Suðursveit Eftir að hafa stoppað í Vík kom blaðamaður við á Kirkjubæjarklaustri og brunaði svo á Hala í Suðursveit í sveitarfélaginu Hornafirði þar sem gist var um nóttina. Þar var allt krökkt af erlendum ferðamönnum, að minnsta kosti ef marka má fjöldann á veitingastaðnum um kvöldið og morguninn. Blaðamaður náði ekki inn í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, Höfn, þar sem stefnan var sett á Skaftafell daginn eftir. Sveitarfélagið er víðfeðmt; telur 6.280 ferkílómetra. Íbúar í sveitarfélaginu voru 2.306 talsins þann 1. janúar 2018 og þar af vour 17 prósent erlendir ríkisborgarar. Í Skaftafelli settist blaðamaður niður með þeim Regínu Hreinsdóttur, þjóðgarðsverði, og Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, starfsmanni þjóðgarðsins. Hún er fædd og uppalin á Fagurhólsmýri í Öræfum, þar sem hún býr enn, og er nú í framboði til sveitarstjórnar; skipar 2. sætið á lista 3. framboðsins. Þar sem þær búa og starfa báðar í Öræfum tók spjall þeirra og blaðamanns um sveitarstjórnarkosningar nokkuð mið af því.Þær Regína Hreinsdóttir og Sigrún Sigurgeirsdóttir, starfsmenn þjóðgarðsins í Skaftafelli og íbúar í Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði.vísir/sunnaLandbúnaður og árstíðabundin störf hér áður fyrr Sigrún segir samfélagið hafa breyst gríðarlega mikið frá því að hún var að alast upp í Öræfum. Þá var landbúnaður aðalatvinnugreinin en fólk fór líka og sinnti árstíðabundnum störfum, til dæmis í sláturhúsinu og sjómennskunni. Í dag séu hins vegar flest störf orðin heilsársstörf, líka í ferðaþjónustunni, sem hafi ekki verið raunin fyrir fáeinum árum. Búum hafi fækkað í Öræfum en þessi breyting á ekki bara við um sveitina þar heldur sveitir um allt land að sögn Sigrúnar. Regína hefur búið í Öræfum og starfað sem þjóðgarðsvörður í Skaftafelli í tíu ár. Breytingin sem hún tekur eftir er á kjarnasamfélaginu í sveitinni. „Maður þekkir þennan kjarna en svo kemur hingað vinnuafl í ferðaþjónustuna sem býr hérna oft í styttri tíma. Það eru ekki margir sem hafa bæst við þennan fasta kjarna sem býr hérna allta. Það hefur orðið smá endurnýjun en það hefur fækkað í þessum kjarna,” segir Regína og bendir á að þeir sem flytji í sveitina séu þá aðallega að koma til að starfa í ferðaþjónustunni en síður í landbúnaðinum.Þarf að passa að það myndist ekki tvö samfélög „Alls staðar í þessu sveitarfélagi er þessi mikla ferðamannaaukning. Þetta er gjörbreyting á fáum árum og því fylgja líka mjög margir íbúar sem eiga lögheimili hérna sem eru að vinna við ferðaþjónustuna. Maður þarf pínulítið að passa að það myndist ekki tvö samfélög hérna. Við þurfum að reyna að hjálpa þessum nýju íbúum að tengjast samfélaginu,“ segir Sigrún en líkt og annars staðar á Suðurlandi þar sem blaðamaður kom við er mikið af erlendu vinnuafli sem starfar í ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu Hornafirði. Þá nefnir Regína samgöngumálin sem mál sem brenni á íbúum. Lengi hafi staðið til að færa hringveginn neðar sem liggur um sveitir Öræfa en framkvæmdin ítrekað frestast. Regína segir að með því að færa veginn myndi umferðaröryggi aukast til muna. Mikil umferð sé nú á veginum og mikið af einbreiðum brúm sem séu stórhættulegar. Undir það getur blaðamaður tekið og minnist kannski sérstaklega einbreiðu brúarinnar við Jökulsárlón, þann fjölsótta ferðamannastað. Má í raun segja að ótrúlegt sé að ekki sé búið að bæta hana miðað við allan þann fjölda sem þar fer um. Regína segir jafnframt að bændur þurfi að þvera veginn til að komast á tún. Hún segir því færslu á hringveginum mikilvæga fyrir Öræfin. Brúin við Jökulsárlón. Húsnæðismálin, heilbrigðisþjónusta og betra skipulag í ferðaþjónustunni Önnur málefni sem þær tæpa á eru húsnæðismálin, það er skortur á húsnæði, og svo betra skipulag í ferðaþjónustunni. „Það þarf betra skipulag í kringum ferðaþjónustuna og betri stýringar, ekki bara hér heldur um allt land. Þetta verður stundum algjört gullgrafaraæði þegar allir ætla að fara inn í sama hellinn á sama tímanum. Þetta er stór áskorun og mikilvæg. Húsnæðismálin eru önnur áskorun og svo þetta að samþætta þessa nýju íbúa sem koma hingað til að vinna í ferðaþjónustunni. Þeir eru margir mjög áhugasamir að kynnast líka sögu og menningu en hafa fá tækifæri til þess. Það þarf að skapa vettvang þar sem menn geta komið saman,“ segir Sigrún. Auk þessa nefnir Regína heilbrigðisþjónustuna en íbúar í Öræfum sækja slíka þjónustu til Hafnar þar sem er heilsugæsla. Ferðamannastraumurinn á svæðinu sé hins vegar svo mikill yfir sumartímann en einnig líka yfir vetrartímann að hjúkrunarfræðing þurfi í Öræfin. Regína bendir á allan þann fjölda sem fari um svæðið og segir að einn dag í febrúar síðastliðnum hafi 3.800 manns komið í gestastofuna í Skaftafelli. Það séu fleiri en búa á Höfn og ekki komi allir sem heimsækja þjóðgarðinn í gestastofuna. Eins og sagði í upphafi greinarinnar heimsótti blaðamaður þrjú af fimmtán sveitarfélögum á Suðurlandi. Af nógu var að taka þó ekki væri farið á fleiri staði en rauði þráðurinn í viðtölum og spjalli við íbúa var ferðaþjónustan og öll þau tækifæri og áskoranir fyrir sveitarfélögin sem fylgja henni. Í öllum sveitarfélögunum er vissulega önnur atvinnustarfsemi, til að mynda gróðurhúsarækt í Bláskógabyggð og sjávarútvegur á Höfn, en ferðaþjónustan er að miklu leyti orðin lífæð samfélaga á Suðurlandi sem eitt sinn voru landbúnaðarhéruð.Landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí. Vísir kemur við víða um land í aðdraganda kosninganna. Á mánudaginn er komið að Vestmannaeyjum.
Holóttar götur, atvinnuskortur kvenna og hækkun fasteignaverðs í huga Skagamanna Þó Skagamenn séu heilt yfir frekar afslappaðir fyrir kosningarnar eru nokkur málefni sem krauma undir yfirborðinu. 7. maí 2018 08:45
„Um leið og það kemur hálka þá fer ég ekki yfir“ Blaðamaður Vísis kom víða við á þriggja daga ferð sinni um Austurland í lok apríl síðastliðnum og ræddi við fjölda fólks um helstu málin í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. 8. maí 2018 10:00
Ósýnilegir frambjóðendur, au pair-sprengja og læknaskortur Blaðamaður Vísis kom víða við í heimsókn sinni á Reykjanes á dögunum og ræddi við íbúana um helstu málin í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. 9. maí 2018 14:00
Leynilega upptakan á Edition-hótelinu:„Ef ég á að taka fimmta sætið vil ég verða þinn maður í þessu“ Innlent
Leynilega upptakan á Edition-hótelinu:„Ef ég á að taka fimmta sætið vil ég verða þinn maður í þessu“ Innlent