Dimitrios Pagourtzis var samvinnuþýður við yfirheyrslu lögreglu í gær, þar sem ofangreind fullyrðing kom fram, en hann var handtekinn eftir að hann framdi ódæðisverkið í Santa Fe-framhaldsskólanum skammt frá borginni Houston. Pagourtzis, sem er sautján ára gamall, er sjálfur nemandi við skólann en hann réðst inn í myndlistartíma skömmu fyrir klukkan 8 í gærmorgun að staðartíma og hóf skothríð.
Sjá einnig: Skotárásin í Santa Fe: „Ekki nógu hugaður til að fremja sjálfsvíg“
Þá hafa tvö fórnarlömb árásarmannsins verið nafngreind. Cynthia Tisdale, sérkennari við Santa Fe-framhaldsskólann, og Sabikha Sheikh, skiptinemi frá Pakistan, létust í árásinni. Á vefmiðlinum Buzzfeed má auk þess nálgast nöfn annarra fórnarlamba Pagourtzis en þau hafa enn ekki fengist staðfest opinberlega.

Í gær var greint frá því að vopnin sem Pagourtzis notaði við árásina, haglabyssa og skammbyssa, eru í eigu föður hans. Skotvopn virðast hafa verið árásarmanninum sérstakt hugðarefni en hann birti ögrandi mynd af sér á Instagram þar sem hann hélt á hnífi og byssu.
Þá birti hann einnig mynd af bol með áletruninni „Fæddur til að drepa“ á samfélagsmiðlum. Téðum samfélagsmiðlareikningum Pagourtzis var eytt eftir að fregnir bárust af árásinni en hann fylgdi samtals þrettán reikningum á Instagram, þar af voru átta aðdáendasíður um skotvopn en hinir reikningarnir fjórir tengdust allir Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og fjölskyldu hans.