Saksóknari í Svíþjóð fer fram á að Úsbekinn Rakhmat Akilov verði dæmdur í ævilangt fangelsi. Akilov varð fimm manns að bana og slasaði fjórtán alvarlega þegar hann ók sendiferðabíl á mikilli ferð inn í mannþröng á Drottningargötunni í Stokkhólmi í apríl í fyrra.
Réttarhöldunum yfir Úsbekanum fertuga lauk í gær. Sagði saksóknari Akilov hættulegan samfélaginu og yrði það í framtíðinni ef skoðanir hans gagnvart trúlausum myndu ekki breytast. Úsbekinn hefur sagt árásina hafa beinst að trúlausum Svíum en ekki hafi verið ætlunin að drepa ferðamenn. Akilov hefur ekki sýnt neina iðrun við réttarhöldin.
Reiknað er með því að dómur verði kveðinn upp snemmsumars.
