„Ég sé ekki fram á það, nei. Ég held að við þurfum frekar að líta á námið sjálft, veita fleirum tækifæri á að sækja námið, vera með hvata til þess áður en við förum í aðrar aðgerðir. En ég held að nám á meistarastigi sé til þess að efla stéttina og ég lít á þetta þannig,“ segir Lilja í samtali við fréttastofu aðspurð um hvort það komi til greina að stytta námið.
Hefur áhyggjur af stöðunni í leikskólum landsins
Hún segir að styrkja þurfi umgjörðina í kringum kennarann á öllum skólastigum, hvort sem það er í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla.„Við sjáum það að mun færri eru að sækja í námið eftir lenginguna og þá þurfum við að huga að því hvað það er sem við getum gert til þess að það séu fleiri sem sækja um þetta nám. Annað sem leikskólarnir hafa verið mjög duglegir að gera er að veita þeim sem eru starfandi en eru ekki kennarar, það eru ófaglærðir inni í leikskólunum, tækifæri á því að bæta við sig menntun og ég er mjög hlynnt því. Þannig að við þurfum svolítið að hugsa út fyrir kassann hvernig við ætlum að gera þetta. Það eru breytingar framundan, það er skortur á fagmenntuðu fólki og við þurfum að takast á við það,“ segir Lilja.
Þá kveðst hún hafa áhyggjur almennt af stöðunni í leikskólum landsins.
„Já, ég hef áhyggjur af því. Þess vegna þurfum við, bæði ríkisvaldið og sveitarfélögin að vinna betur saman að þessum málaflokki því hann skiptir okkur öll mjög miklu máli. Eitt er til dæmis mjög áberandi; það er mjög mikil ánægja hjá foreldrum og börnum með leikskólastigið þrátt fyrir að það sé þessi skortur og það er auðvitað mjög stór vísbending um það að við viljum gera betur hvað þessi mál varðar. Íslenskir leikskólar þykja framúrskarandi góðir ef þú berð þá saman við leikskóla annars staðar og við erum komin mun lengra varðandi allt sem tengist skólaþróun. Það er mjög jákvætt og okkur ber að fjárfesta meira hvað þetta varðar.“
Rætt verður nánar vð Lilju Alfreðsdóttur í fréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 í kvöld.