Viðskipti erlent

Google bannar auglýsingar fyrir rafmyntir

Kjartan Kjartansson skrifar
Rífandi uppgangur hefur verið í rafmyntum eins og Bitcoin undanfarið. Verðmæti þeirra er hins vegar afar óstöðugt og fjárfestingar í þeim því áhættusamar.
Rífandi uppgangur hefur verið í rafmyntum eins og Bitcoin undanfarið. Verðmæti þeirra er hins vegar afar óstöðugt og fjárfestingar í þeim því áhættusamar. Vísir/AFP
Tæknirisinn Google ætlar að banna auglýsingar fyrir þann aragrúa rafmynta og þjónustur þeim tengdum sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur undanfarið. Ástæðan hefur ekki verið gefin út en sérfræðingar hafa varað við bólumyndun á rafmyntarmarkaðinum.

Í tilkynningu kemur fram að bannið taki gildi í júní. Það mun ná til auglýsinga fyrir uppboð á rafmyntum, ráðgjafarþjónustu fyrir viðskipti með rafmyntir og geymsluþjónustu fyrir þær. Breska ríkisútvarpið BBC segir að Google ætli að grípa til þessa ráðs vegna þess að fyrirtækið hafi áhyggjur af skorti á neytendavernd í kringum flókin viðskipti með rafmyntir.

Gengi rafmyntarinnar Bitcoin reis gríðarlega á síðasta ári. Það laðaði að sér áhuga fjölda fólks sem vildi græða á fárinu í kringum rafmyntir. Aðrar og áður nær óþekktar rafmyntir hækkuðu einnig verulega í verði.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, varaði við rafmyntum í gær. Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkahópa væri aðeins hluti af hættunni við þær. Mikill vöxtur og sveiflukennt verð ásamt óljósri tengingu við hefðbundna fjármálamarkaði þýddi að fólk þyrfti að átta sig á áhættunni við rafmyntir.

Facebook takmarkaði einnig auglýsingar sem tengjast rafmyntir í janúar og vísaði til þess að mörg fyrirtæki ynnu ekki í góðri trú.


Tengdar fréttir

Fjámálaeftirlitið varar við rafmyntum

Fjármálaeftirlitið telur sérstaka ástæðu til þess að vara almenning við þeirri "miklu áhættu“ sem fylgir viðskiptum með rafræna gjaldmiðilinn Bitcoin. Neytendur eigi ekki að hætta fjármunum sem þeir mega ekki við að tapa í fjárfestingar í gjaldmiðlinum, nema þá að mjög vel athuguðu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×