Íslenski boltinn

Bergsveinn: Var ákveðinn að skipta um lið eftir samtal við Óla Kristjáns

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bergsveinn er kominn aftur heim í gult.
Bergsveinn er kominn aftur heim í gult. vísir/anton brink
Bergsveinn Ólafsson, sem var tilkynntur sem leikmaður Fjölnis á blaðamannafundi nú síðdegis, segir að hann hafi ákveðið að yfirgefa FH eftir samtal við Ólaf Kristjánsson, þjálfara FH.

„Tilfinningin er mjög góð að vera kominn heim í gula búninginn. Þeir segja að heima sé best,” sagði Bergsveinn á blaðamannafundi í Egilshöll í dag.

„Það eru kannski tvær vikur síðan að þetta kom upp. Langt og ekki langt, en þetta er búið að taka ágætis tíma,” en Bergsveinn var aldrei í efa eftir að þetta kom upp.

„Já ég var ákveðinn eftir spjall við Óla (innsk. blm. Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH) að skipta um lið og frábært að Fjölnir vildi fá mig heim aftur. Ég er bara ánægður að vera kominn heim.”

Bergsveinn hefur ekki verið vanur því að sitja mikið á bekknum á sínum meistaraflokksferli og hann segir að það fylgi hans metnaði að spila hvern einasta leik.

„Ég er með það mikinn metnað fyrir þessu að ég hef ekki húmor fyrir því að sitja á bekknum og ég hef metnað fyrir því að spila. Ég vil spila hverju einustu mínútu og ég er ánægður með þetta skref.”

Miðvörðurinn sér ekki eftir einni mínútu í FH enda vann hann þar Íslandsmeistaratitil og spilaði fjöldan allan af Evrópuleikjum.

„Ég er klárlega betri leikmaður en ég var fyrir tveimur árum og ég hef ekkert nema gott að segja um tímann hjá FH. Frábær ár fyrir mig og þó að síðasta árið hafi ekki verið sérstakt. Mikil og góð reynsla. Ég hef gott að segja um allt batteríið hjá FH.”

„Það verður að koma í ljós. Þórður er fyrirliðinn í dag og mikill uppgangur hjá honum síðustu ár. Ég veit það ekki, en það kemur bara í ljós. Þangað til er Þórður minn fyrirliði,” sagði Bergsveinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×