Efnahagslegur og stjórnmálalegur stöðugleiki helstu markmið al-Sisi
Sisi, fyrrverandi marskálkur og yfirmaður egypska hersins, er talinn sigurstranglegur. Ríkisstjórn hans hefur lagt áherslu á að koma á stöðugleika í landinu en gagnrýnendur hans segja að vinsældir hans hafi beðið hnekki eftir hagræðingar og niðurskurði.
Andstæðingar hans hafa einnig bent á ófremdarástand hvað varðar þjóðaröryggismál og mannréttindabrot sem hann hefur framið í starfi. Þá hefur það einnig verið harðlega gagnrýnt að forsetinn skyldi gefa Saudi-Arabíu tvær eyjur í Rauðahafi.
Stuðningsmenn hans segja þó að hann hafi lyft grettistaki á efnahag landsins og unnið að því að vinna bug á fátækt. Mikil fátækt er í Egyptalandi en fjórðungur þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum.
Mannréttindahópar hafa ítrekað sakað forsetann um mannréttindabrot, að fangelsa andstæðinga sína og fjölmiðlamenn.
Átökin á Sínaí-skaga í brennidepli
Þjóðaröryggismál eru í brennidepli fyrir komandi kosningar en átök hafa geisað á Sínaí-skaga á undanförnum árum. Hafa hermenn þar kljáðst við hryðjuverkamenn, meðal annars skæruliða hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.
Nokkrar fjöldaaftökur hafa átt sér stað í Egyptalandi vegna átaka á skaganum. Fimmtán menn voru teknir af lífi í desember eftir að hafa verið sakfelldir fyrir árás á hermann á Sínaí-skaga árið 2013 og fjórir menn voru teknir af lífi í þessum mánuði en þeir voru sakaðir um að hafa skipulagt sprengjuárás.

Forsetinn stiklaði á stóru um afrek sín í embætti í yfirlýsingu sinni í gær. Lagði hann áherslu á fjárhagslegan viðsnúning eftir fjölmörg ár af pólitískum og efnahagslegum óstöðugleika.
„Að byggja upp ríki tekur sextán til tuttugu ár, ég er að reyna að klára það á átta árum,“ sagði forsetinn.
al-Sisi er fyrrverandi stjórnandi egypska hersins og fór fyrir valdaráni þegar Morsi var steypt af stóli. Morsi var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands. Sisi varð forseti í kjölfarið árið 2014 þegar hann vann kosningarnar með 96,91 prósent atkvæða. Kosningaþátttaka var hins vegar ekki nema 47% en 54 milljónir voru á kjörskrá.
„Ég heiti því að komandi forsetakosningar verða frjálsar og gagnsæi haft að leiðarljósi. Allir frambjóðendur munu koma jafnir að borðinu,“ sagði Sisi.
Sami Anan og Khaled Ali bjóða sig fram
Fyrr í mánuðinum tilkynnti Ahmed Shafik, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, að hann muni ekki bjóða sig fram í forsetakosningunum. Shafik hafði legið undir feldi en hann hafði ítrekað verið orðaðu við embættið. Ahmed Shafik bauð sig fram til forseta í Egyptalandi árið 2012 en tapaði þeim kosningum naumlega fyrir Mohamed Morsi. Morsi gaf í kjölfarið út handtökuskipun á hendur Shafik.
Í dag tilkynnti Sami Anan, fyrrverandi herstjóri landsins, að hann hyggst bjóða sig fram og þá hefur mannréttindalögfræðingurinn Khaled Ali einnig gefið kost á sér.