Erlent

Aldrei fleiri morð í Mexíkó

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Mexíkó.
Lögregluþjónar að störfum í Mexíkó. Vísir/AFP
Rúmlega tuttugu og níu þúsund morð voru framin í Mexíkó á síðasta ári, fleiri en nokkru sinni fyrr, að því er fram kemur í nýjum tölum frá stjórnvöldum.

Óöld hefur ríkt víða í Mexíkó síðustu ár og áratugi þar sem glæpagengi hafa tekist á um fíkniefnamarkaðinn og innflutning til Bandaríkjanna. Verst var ástandið 2011 þegar rúmlega 27 þúsund manns féllu fyrir morðingjahendi en árið í fyrra sló það met svo um munaði. Þetta er hæsta morðtíðni í landinu frá því samanburðarhæfar mælingar hófust, árið 1997 og líklega sú hæsta í sögunni.

Ofbeldið verður án efa eitt helsta kosningamálið í júlí þegar Mexíkóar kjósa sér nýjan forseta. Sitjandi forseti, Enrique Péna Nieto, er talinn lenda í vandræðum með að sannfæra fólk um að kjósa sig þegar ljóst virðist að honum hafi mistekist að stemma stigu við glæpagengjunum. Nieto tók við árið 2013 og síðan þá hefur morðum fjölgað mjög í landinu. Í fyrra skráði lögreglan 40 prósentum fleiri morðmál, heldur en fyrsta árið hans í embætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×