Fótbolti

67 prósent stuðningsmanna Real Madrid vilja losna við Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo hefur verið kosinn besti fótboltamaður heims undanfarin tvö ár og hefur á þeim tíma hjálpa Real Madrid að vera fyrsta félagið til að vinna Meistaradeildinni tvö ár í röð.

Ronaldo hefur ennfremur skorað 422 mörk í 418 leikjum fyrir Real Madrid eða meira en nokkur annar í glæsilegri sögu þessa spænska stórliðs. Á þessum tíma hans í Madrid hefur Real unnið fimmtán titla.

Ef einhver leikmaður Real Madrid ætti að vera elskaður þá er það Cristiano Ronaldo en svo er ekki raunin. Í netkönnun hjá spænska íþróttablaðinu AS kom í ljós að 67 prósent, af þeim 120 þúsund sem kusu, vilja hann í burtu.  ESPN segir frá.

Cristiano Ronaldo er orðinn 32 ára gamall og á því ekkert alltof mörg ár eftir en það er þó launakröfur hans sem hafa stuðað stuðningsmenn Real Madrid mest.

Cristiano Ronaldo hefur nefnilega heimtað að laun sín verði tvöfölduð og heimildir ESPN herma líka að Portúgalinn vilji fara í sumar.

Ronaldo fær í kringum 50 milljónir evra í árslaun eða um 6,3 milljarða íslenska króna. Það að hann vilji fara er líka að hjálpa til að móta skoðun stuðningsmanna Real Madrid.

Það er heldur ekkert öruggt að allir sem tóku þátt séu í raun stuðningsmenn Real Madrid. Það væri ekkert slæmt fyrir mótherja liðsins eins og kannski Atletico Madrid að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að stoppa einn besta fótboltamann sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×