Fleiri geta innritast í læknadeild Háskóla Íslands á komandi hausti en undanfarin ár. Hingað til hafa 48 getað komist inn í deildina en nýnemar verða 50 næsta haust.
Þetta er meðal þess sem felst í breytingu á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands. Þá verður unnt að taka við 100 nýnemum í lagadeild í stað 90 áður. Þá má taka 14 inn í meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun í stað 12 áður.
Gera má ráð fyrir meiri aðsókn að háskólum í haust en fyrri ár enda tvöfaldur árgangur að útskrifast úr framhaldsskólum. Renna þá saman þeir síðustu sem ljúka framhaldsskóla á fjórum árum og þeir fyrstu sem klára hann á þremur.
