Erlent

Eykur hættu á ofbeldisöldu og glundroða í heimshlutanum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá fundi ráðherra Arababandalagsins í Kaíró í gærkvöldi.
Frá fundi ráðherra Arababandalagsins í Kaíró í gærkvöldi. Vísir/afp
Ráðherrar ríkja Arababandalagsins segja að ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels auki hættu á ofbeldisöldu og glundroða í heimshlutanum. Ekki sé lengur hægt að treysta á Bandaríkin til að miðla málum í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs.

BBC greinir frá málinu en ákvörðun Trump batt enda á hlutleysi Bandaríkjanna í einni viðkvæmustu deilunni í Mið-Austurlöndum.

Ráðherrar 22 ríkja, þeirra á meðal margir af nánustu bandamönnum Bandaríkjanna í heimshlutanum, sendu frá sér yfirlýsinguna í nótt. Síðustu þrjá daga hafa verið mikið um mótmæli og óeirðir bæði á Vesturbakkanum og Gasaströndinni.

Ísraelar hafa ávallt litið á Jerúsalem sem höfuðborg sína, en Palestínumenn hafa álitið austurhluta borgarinnar – sem Ísraelar hernámu í Sex daga stríðinu 1967 – vera framtíðarhöfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

Funduðu í Kaíró

Trump hét því í kosningabaráttunni að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og að með ákvörðuninni væri einungis verið að bregðast við og viðurkenna raunveruleikann.

Ráðherrar Arababandalagsins funduðu í egypsku höfuðborginni Kaíró og sendu frá sér yfirlýsinguna klukkan eitt í nótt. Meðal þeirra ríkja sem gagnrýna forsetann bandaríska eru Jórdanía, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Á sérstökum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á föstudaginn, þar sem málið var til umræðu, voru Bandaríkin einangruð í afstöðu sinni þar sem fjórtán af fimmtán ríki, sem sæti eiga í ráðinu, fordæmdu ákvörðun Bandaríkjastjórnar.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, sagði Sameinuðu þjóðirnar hafa sýnt svívirðilega óvild í garð Ísraels í gegnum tíðina. Bandaríkin myndu enn vinna að því að friður náist í heimshlutanum.


Tengdar fréttir

Staða Jerúsalem: Um hvað snýst málið?

Staða borgarinnar Jerúsalem hefur lengi verið umdeild og ekki er líklegt að það breytist með ákvörðun Donald Trump að viðurkenna borgina sem höfuðborg Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×