„Okkur hefur svo ofboðslega lengi dreymt um að smíða meira úr gulli. En sökum kostnaðar þá hefur það ekki endilega alltaf verið sniðugasta leiðin til að fara. En í tilefni af fimm ára afmælinu þá ákváðum við að taka þetta alla leið,“ útskýrir Helga sem viðurkennir að hráefnið í skartgripina hafi kostað sitt.
„Maður náttúrulega svitnar þegar maður kaupir efnið og er hræddur um að setja sig á hausinn. Það er mjög óþægileg tilfinning,“ segir Helga og skellir upp úr.„Þetta er eitthvað sem ég hefði ekki treyst mér til að gera fyrr. Þegar við vorum að byrja að byggja fyrirtækið upp þá hefði maður ekki þorað að fjárfesta svona mikið í efniskaup.“
Eins mikið af demöntum og hægt er

Þess má geta að Orri lærði demantaísetningu á sínum yngri árum í New York. „Okkur finnst þetta líka vera smá óður til fortíðar Orra sem vann við þetta í New York. Hann flutti þangað sem unglingur með ekkert nema bakpoka nánast og endaði nokkuð tilviljunarkennt á að vinna sem demantaísetjari hjá stóru demantafyrirtæki á Manhattan. Það er því gaman að nýta þá dýrmætu reynslu og mikil forréttindi að geta sett demanta í sjálf.“