Fótbolti

Jóhann Berg: Maður bíður bara eftir 1. desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Eyþór
Þetta gefur verið frábært haust fyrir Burnley-manninn Jóhann Berg Guðmundsson enda bæði liðin hans að ná frábærum árangri á stóra sviðinu.

Jóhann Berg er einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins sem er komið á HM í fyrsta sinn en hann er líka í stóru hlutiverki í spútnikliði Burnley í ensku úrvalsdeildinni sem er í dag með jafnmörg stig og stórlið Liverpool og Arsenal.

Jóhann Berg og félagar unnu Swansea City 2-0 um helgina og hafa unnið þrjá leiki í röð. Jóhann Berg hafði lagt upp sigurmarkið í hinum tveimur sigurleikjunum.

Jóhann Berg er í hópi þeirra sem er farinn að telja niður í heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar þar sem íslenska landsliðið verður í sviðsljósinu.

Það verður dregið í riðli 1. desember næstkomandi eða eftir tíu daga. „Maður bíður bara eftir 1. desember og ég verð bara límdur fyrir framan skjáinn eins og flestir landsmenn að bíða eftir því að sjá hverja við fáum,“ sagði Jóhann Berg í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag.

Ísland er í þriðja styrkleikaflokki og gæti lent í riðli bæði með sterkri Suður-Ameríkuþjóð (Brasilía eða Argentína) og svo öflugri Evrópuþjóð (England eða Spánn).

„Ég hef svo sem látið það vera að velja mér einhverja óskamótherja en það gerist náttúrulega ekki á hverjum degi að maður fái að spila við lið eins og Brasilíu. En sama hvaða lið við fáum þá verður þetta mögnuð upplifun fyrir okkur sem lið og þjóðina alla að taka þátt í þessu,“ sagði Jóhann Berg ennfremur í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×