Fótbolti

Maradona, Cafu eða Cannavaro gætu dregið Ísland upp úr pottinum 1. desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. Vísir/Getty
Það er farið að styttast í það að dregið verði í riðla í úrslitakeppni HM í Rússlandi en eins og allir vita verður íslenska landsliðið nú í fyrsta sinn í pottinum.

Dregið verður í riðla á HM 2018 í Kremlín-höllinni í Moskvu föstudaginn 1. desember og FIFA hefur nú tilkynnt hverjir það verða sem hjálpa Gary Lineker og Maria Komandnaya við dráttinn.

Laurent Blanc, Gordon Banks, Cafu, Fabio Cannavaro, Diego Forlan, Diego Maradona og Carles Puyol verða þeim innan handar í Moskvu. Mario Klose verður einnig á staðnum, en hann sér um að halda á HM bikarnum. Saman verða þessir átta fyrrum leikmenn fulltrúar þeirra átta þjóða sem hafa orðið heimsmeistarar.





Allir hafa þessir menn orðið heimsmeistarar nema Diego Forlan en síðasti heimsmeistaratitill Úrúgvæ var árið 1950. Forlan var hinsvegar kosinn besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku 2010 þar sem landslið Úrúgvæmanna endaði í fjórða sæti.

„Drátturinn í lokakeppni HM 2018 er augljóslega mjög spennandi augnablik fyrir alla knattspyrnuaðdáendur. Það er frábært að fá allar þessar FIFA goðsagnir frá öllum þeim þjóðum sem hafa unnið Heimsmeistaramótið til þessa," sagði Gianni Infantion, forseti FIFA, en KSÍ hefur þetta eftir honum í frétt á heimasíðu sinni.

Íslenska landsliðið er í þriðja styrkleikaflokki og það er ljóst að liðið verður með mjög sterkum liðum í riðli. Strákarnir okkar gætu sem dæmi lent í riðli bæði með sterkri Suður-Ameríkuþjóð (Brasilía eða Argentína) og svo öflugri Evrópuþjóð (England eða Spánn).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×