Erlent

Segja Trump hafa „grátbeðið“ um kjarnorkustríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Kim Jong Un
Donald Trump og Kim Jong Un Vísir/Getty/AFP
Stjórnvöld Norður-Kóreu er alls ekki sátt við Asíuferð Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Þeir segja Trump hafa „grátbeðið“ um kjarnorkustríð með ferð sinni og að ferðin hafi ítrekað nauðsyn þess að ríkið komi upp kjarnorkuvopnum.

Í tilkynningu frá Norður-Kóreu segir að Trump hafi sýnt sitt rétta eðli og að ferð hans sé eingöngu til þess fallin að safna bandamönnum til að neyða Norður-Kóreu til að láta af kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins, sem sé eingöngu ætluð til varnar.



Trump er nú í tæplega tveggja vikna ferð um Asíu þar sem Norður-Kórea hefur verið mikið á milli tannanna á fólki.

Í tilkynningu Norður-Kóreu er bent á það að ferð Trump var sett á laggirnar skömmu eftir „geðsjúk“ ummæli hans um eyðingu Norður-Kóreu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Trump hefur ítrekað hótað því að eyða Norður-Kóreu.

Þegar Trump hélt ræðu fyrir þing Suður-Kóreu sagði hann að kjarnorkuvopn myndu ekki gera Norður-Kóreu öruggari. Þess í stað væri ógnin gagnvart einræðisstjórn landsins meiri með hverju skrefi sem ríkið taki í átt að kjarnorkuvopnum og langdrægum eldflaugum sem borið geta kjarnorkuvopn til stranda Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×