Fótbolti

Sakaði Ástrali um njósnir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pinto á æfingunni örlagaríku
Pinto á æfingunni örlagaríku vísir/getty
Ástralía og Hondúras eigast við í umspili um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar. Það er því mikið undir og hefur þjálfari Hondúras hagað sér eftir því, en hann sakaði Ástrali um njósnir.

Lið Hondúras var við æfingar á ANZ vellinum í Sydney þar sem seinni umspilsviðureign liðanna fer fram á morgun, þegar dróni sást fljúga yfir völlinn.

Tóku starfsmenn Hondúras þá myndband af drónanum og settu á Twitter, þar sem þeir sögðu „Ástralir njósna um æfingu Hondúras með dróna, sem olli leikmönnum og starfsliði miklu hugarangri.“





Ástralska knattspyrnusambandið notast við dróna við myndatökur á sínum eigin æfingum, en neitaði þessum ásökunum. Seinna kom í ljós að dróninn hafði verið eign barna sem voru við leik í almenningsgarði nálægt vellinum.

Þjálfari Hondúras, Jorge Pinto, hefur þrátt fyrir það sakað Ástrali um njósnir.

„Þetta atvik er vandræðalegt fyrir svona þróaða þjóð,“ sagði Pinto á blaðamannafundi. „Þegar Ástralirnir komu til Hondúras þá grandskoðuðu þeir hvert einasta herbergi á vellinum þar sem þeir æfðu og leituðu eftir hlerunarbúnaði.“

Þá hefur Pinto einnig haldið því fram að blaðamaður frá Hondúras hafi lekið upplýsingum um liðið til Ástrala.

Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli og því verða bæði lið að sækja til sigurs á morgun ætli þau sér til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×