Fótbolti

Samherji Birkis í aðalhlutverki er Ástralar tryggðu sér sæti á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mile Jedinak var öruggur á vítapunktinum.
Mile Jedinak var öruggur á vítapunktinum. vísir/getty
Ástralía varð 31. liðið til að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi þegar það vann 3-1 sigur á Hondúras í seinni umspilsleik liðanna í Sydney í morgun. Fyrri leiknum lyktaði með markalausu jafntefli.

Mile Jedinak, samherji Birkis Bjarnasonar hjá Aston Villa, skoraði tvö mörk úr vítaspyrnum í leiknum í dag.

Ástralar eru á leið á sitt fjórða heimsmeistaramót í röð og fimmta alls. Ástralía komst í 16-liða úrslit á HM 2006 en komst ekki upp úr sínum riðli á HM 1974, 2010 og 2014.

Staðan í hálfleik í leiknum í dag var markalaus en Ástralía komst yfir á 54. mínútu þegar aukaspyrna Jedinaks fór af Maynor Figueroa og inn.

Jedinak bætti öðru marki við úr víti á 72. mínútu og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði hann aftur af vítapunktinum. Alberto Elis minnkaði muninn í uppbótartíma en það dugði ekki til. Lokatölur 3-1, Ástralíu í vil.

Nú er bara eitt sæti laust á HM 2018. Það kemur í ljós í nótt hvort Perú eða Nýja-Sjáland fær síðasta farseðilinn til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×