Erlent

Mun standa í vegi fyrir „ólöglegri“ kjarnorkuárás

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gengur út af fundi í Washington D.C. fyrr í vikunni.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gengur út af fundi í Washington D.C. fyrr í vikunni. Vísir/AFP
John Hyten, yfirmaður kjarnorkuvopnamála innan Bandaríkjahers, sagðist ekki myndu verða að ósk Bandaríkjaforseta ef hann fyrirskipaði kjarnorkuárás – að því gefnu að fyrirskipunin væri „ólögleg.“ Bandaríska fréttastofan CNN greinir frá.

„Ég gef forsetanum ráð,“ sagði hershöfðinginn Hyten á alþjóðlegri öryggismálaráðstefnu í Nova Scotia í Kanada í gær. „Hann segir mér hvað ég á að gera, og ef það er ólöglegt, getið hvað gerist þá. Ég mun segja „herra forseti, það er ólöglegt.“ Getið hvað hann gerir þá. Hann mun segja: „Hvað væri löglegt?“ og við munum upphugsa leiðir til að bregðast við stöðunni, og þannig gengur þetta fyrir sig. Þetta er ekki ýkja flókið.“

Þingnefnd utanríkismála í öldungadeild Bandaríkjaþings fundaði nýlega um heimild Bandaríkjaforseta til að skjóta kjarnorkuvopnum á loft. Fjörutíu ár eru síðan slíkur fundur var haldinn síðast.

John Hyten, yfirmaður kjarnorkuvopnamála innan Bandaríkjahers.Vísir/AFP
Robert Kehler, sem gegndi stöðu hershöfðingja í bandaríska hernum í valdatíð Barack Obama, ræddi kjarnorkumálin á fundi þingnefndarinnar. Hann sagði Bandaríkjaher ekki framfylgja fyrirskipunum forsetans í blindni. Allar slíkar fyrirskipanir, sérstaklega er varða kjarnorkumál, verði að vera samkvæmt lögum.

Kjarnorkumál Bandaríkjanna hafa farið hátt í fréttum undanfarin misseri vegna tíðra kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu. Nú síðast sendi Donald Trump Bandaríkjaforseti stjórnvöldum í Norður-Kóreu tóninn í heimsókn sinni til Suður-Kóreu fyrr í þessum mánuði.

„Ekki vanmeta okkur, ekki ögra okkur,“ sagði forsetinn um leið og hann fordæmi „hina myrku draumóra“ sem einkenndu lífið í Norður-Kóreu. Þá hvatti hann aðrar þjóðir til að stöðva vopnabrölt leiðtogans, Kim Jong-un.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×