Fótbolti

Hollendingar þurftu að vinna 7-0 en unnu bara 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arjen Robben skoraði bæði mörk Hollendinga.
Arjen Robben skoraði bæði mörk Hollendinga. Vísir/EPA
Svíar komust í kvöld í umspil um laust sæti á HM í Rússlandi næsta sumar þrátt fyrir tveggja marka tap á móti Hollandi.

Við Íslendingar sáum til þess að bronsliðið frá HM í Brasilíu 2014 kæmist ekki á EM í Frakklandi 2016 en að þessu sinni voru það Svíar sem skilja Hollendinga eftir í undankeppni.

Hollenska landsliðið mun því missa af tveimur stórmótum í röð en að þessu sinni misstu þeir af umspilinu á markatölu.

Svíar höfðu þriggja stiga og tólf marka forskot á Hollendinga fyrir leikinn og því þurfti hollenska liðið að vinna sjö marka sigur til að ná öðru sætinu af Svíum.

Hollenska liðið var í stórsókn frá fyrstu mínútu og það var ljóst á öllu að Svíarnir ætluðu að reyna að halda sínu. Aðeins stórslys myndi taka af þeim sætið í umspilinu.

Arjen Robben kom Hollendingum í 2-0 með tveimur mörkum fyrir hálfleik. Fyrra markið hans kom úr vítaspyrnu á 16. mínútu sem dæmd var fyrir hendi á Manchester United manninn  Victor Lindelof.

Annað mark Robben leit síðan dagsins ljós á 40. mínútu með laglegu skoti fyrir utan teig eftir stoðsendingu frá Ryan Babel.

Hollendingum tókst ekki að bæta við fleirum mörkum í seinni hálfleiknum og urðu því að sætta sig við þriðja sætið í riðlunum og þar með að horfa á HM í sjónvarpinu næsta sumar.

Svíar fá hinsvegar tækifæri til að komast til Rússlands í gegnum umspilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×