Fótbolti

Tyrkir verða þjálfaralausir á móti Íslandi

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Mircea Lucescu verður ekki á hliðarlínunni á móti Íslandi.
Mircea Lucescu verður ekki á hliðarlínunni á móti Íslandi. vísir/getty
Mircea Lucescu, þjálfari tyrkneska landsliðsins í fótbolta, mun ekki stýra sínum strákum af hliðarlínunni þegar þeir mæta Íslandi í undankeppni EM 2018 í Eskisehir á föstudagskvöldið.

Rúmeninn 72 ára gamli var úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd FIFA í gær fyrir atvik sem kom upp eftir tap Tyrkja á móti Úkraínu á útivelli í síðustu landsleikjaviku.

Lucescu var ósáttur við annan aðstoðardómarann sem flaggaði ekki rangstöðu á Andriy Yarmolenko þegar hann skoraði fyrir Úkraínu. Yarmolenko skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Úkraínumanna í leiknum.

Rúmeninn var svo reiður að hann beið eftir dómaratríóinu fyrir utan klefann hjá því og sýndi því staðsetningu aðstoðardómarans á myndbandi áður en þeir komust til búningsklefa.

Fyrir þetta var Lucescu úrskurðaður í eins leiks bann sem ætti nú að vera vatn á myllu okkar stráka en undir stjórn Lucescu hefur tyrkneska liðið verið á uppleið. Það vann Króatíu í síðasta heimaleik.

Fréttirnar af leikbanninu hafa ekki borist langt því enginn í starfsliði KSÍ, hvorki þjálfarar né aðrir, höfðu hugmynd um þessa staðreynd þegar blaðamaður Vísis bar þetta upp á Heimi.

Hann fagnaði þessu eðlilega en bjóst þó ekki við að þetta myndi skipta miklu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×