Fótbolti

Hörður Björgvin: Ég er orðinn vel pirraður

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Tyrklandi í borginni Eskisehir á föstudagskvöldið en með sex stigum í næstu tveimur leikjum á móti Tyrkjum og Kósóvó eru strákarnir okkar öruggir með sæti í umspili um farseðil á HM 2018.

„Auðvitað er þetta þægileg pæling en öll liðin eru jöfn. Ef við misstígum okkur getum við dottið niður en við erum góðir undir pressu og erum tilbúnir í slaginn. Við erum bestir undir pressu eins og sást á móti Króatíu. Þar vildum við vinna og það gerðist,“ segir Hörður Björgvin Magnússon, vinstri bakvörður íslenska liðsins.

Hörður kom inn í byrjunarliðið fyrir leikinn á móti Króatíu sem vannst, 1-0, en hann skoraði sigurmarkið á lokamínútu leiksins. Eftir það tók hann stöðuna af Ara Frey Skúlasyni.

„Gæðin eru mikil í landsliðinu og leikmennirnir orðnir miklu betri þannig það er erfitt að komast í landsliðið og krefjast þess að fá að spila. Þegar að maður fær tækifærið reynir maður að nýta það eins vel og maður getur,“ segir hann.

„Ég hef reynt að nýta mín tækifæri hingað til og vonandi heldur það bara áfram. Auðvitað er leiðinlegt fyrir aðra leikmenn sem þurfa að sitja á bekknum. Þeir eru samt alltaf tilbúnir að koma inn á þegar að kallið kemur. Það er ekki hægt að kvarta yfir liðsheildinni hérna. Það hjálpast allir að.“

Þrátt fyrir að vera byrjunarliðsmaður í landsliði sem spilaði á EM 2016 og gæti verið á leið á HM 2018 fær hann lítið sem ekkert að spila hjá B-deildarliðinu Bristol City á Englandi.

„Ég er orðinn vel pirraður að innan en ég læt ekki neinn sjá það á mér. Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þjálfaranum eða öðrum í teyminu. Auðvitað á ég að fá einhverja leiki þarna. Ég fæ bikarleiki sem er ekki nóg því ég verð að spila meira. Ég er ekki sáttur með þetta,“ segir Hörður Björgvin.

„Ég er ánægður með að fá kallið í landsliðið en það gefur mér ekkert hjá Bristol. Það er mjög skrítið að spila vel með landsliðinu á móti góðum leikmönnum en fá ekkert fyrir það hjá félagsliðinu mínu,“ segir Hörður Björgvin Magnússon.

Allt viðtalið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×