Fótbolti

Emil: Ef allt er klárt verður bara gaman að vera uppi í stúku

Tómas Þór Þórðarson í Eskisehir skrifar
Emil Hallfreðsson, leikmaður Udinese og íslenska landsliðsins í fótbolta, verður ekki með þegar strákarnir okkar mæta Tyrklandi í undankeppni HM 2018 á föstudagskvöldið.

Emil fékk gult spjald í leiknum á móti Úkraínu í síðustu landsleikjaviku og er því komin í leikbann sem er mikil synd þar sem hann spilaði stórkostlega og nú gæti liðið verið án fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar.

Hafnfirðingurinn er mættur til Tyrklands með landsliðinu þrátt fyrir að vera ekki að fara að spila á föstudaginn. Þetta er vitaskuld skrítin staða að vera í.

„Það var mjög pirrandi þegar þetta rann upp fyrir mér á fyrstu æfingunni en ég er búinn að stilla mig inn á það að ég er ekkert að fara að spila. Maður reynir bara í staðinn að gefa af sér á öðrum stöðum og vera í klappliðinu. Þetta er svekkjandi en samt gaman. Ég verð bara að vera klár í leikinn á mánudaginn sem er ekki síður mikilvægur,“ segir Emil.

Miðjumaðurinn öflugi fór erfiðlega af stað á móti Úkraínu og fékk þetta óþarfa gula spjald en var svo magnaður í seinni hálfleik og vill ólmur komast aftur í bláa búninginn til að sýna aðra eins frammistöðu.

„Við áttum alveg ótrúlega flottan leik. Það verður leiðinlegt fyrir mig að geta ekki byggt aðeins ofan á það á móti Tyrklandi. Maður er samt bara klár að koma inn á móti Kósóvó ef þess verður þörf. Ég verð klár í klappliðinu á móti Tyrklandi. Við vitum hvað er undir og ef það verður allt klárt á föstudaginn verður bara gaman að vera upp í stúku,“ segir Emil.

Vegna leikbanns Emils og meiðsla Arons Einars eru lausar stöður í byrjunarliðinu en sést það á æfingum að menn vita af mögulegu byrjunarliðssæti?

„Það eru alltaf allir að sýna að þeir vilja spila og að þeir séu klárir. Við erum það mikið lið að sá sem kemur inn fær stuðning frá öllum hinum. Við viljum ná árangri og sigrum og því styðja þeir sem eru fyrir utan þá sem eru að spila. Það er gríðarlega mikilvægt. Auðvitað er hungur í öllum leikmönnum en sigrar og úrslit er það sem skiptir máli,“ segir Emil Hallfreðsson.

Allt viðtalið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×