Fótbolti

Aron Einar: Orð fá þessu ekki lýst

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, segir að orð fái þessu ekki lýst að liðið sé búið að tryggja sig inn á HM. Hann segir að fögnuðurinn hafi verið meiri nú en þegar liðið tryggði sig á EM.

„Meira, já fannst mér. Þetta var erfiðara. Við þurftum að hafa virkilega fyrir þessu og það er mikil vinna að baki," sagði Aron Einar í samtali við Vísi í leikslok.

„Það er mikill tími sem hefur farið í að hugsa um þetta markmið. Markmiðinu er náð og þetta markmið var sett eftir leikinn sem við töpuðum gegn Króatíu úti í umspilinu."

„Menn voru mikið niðri þá og við settum það markmið að komast á HM 2018 og við gerðum það. Við komumst yfir Króatana og það var dálítið sætt."

„Þetta var tilfinningaþrung stund. Þetta var kærkomið og þetta var erfið fæðing. Við áttum ekki góðan leik og þeir voru sterkari aðilinn í þessum leik. Héldu boltanum betur og við lúkkuðum stressaðir."

Aron Einar segir að liðið hafi verið í smá basli í kvöld, en klárað dæmið.

„Það er það góða við þetta lið. Það er karakter og við náum fram úrslitum sem við ætlum okkur þó að við séum ekki að spila við. Það sýnir styrkleika og ég er stoltur af liðinu, starfsliðinu, KSÍ, áhorfendur og öllum í landinu. Þetta er gríðarlega stórt."

Ísland er komið á HM 2018. Það er risa stórt og Aron er sammála því.

„Vá, þetta er aðeins að synca inn að maður sé að fara á HM. Þetta hefur verið draumur ég veit ekki hvað lengi og maður horfi alltaf á HM. Þetta er orðið að veruleika og það er í raun ekki hægt að segja neitt. Orð fá þessu ekki lýst," sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×