Körfubolti

Goran Dragic um Luka Doncic: Hann verður einn sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic og Goran Dragic voru í úrvalsliðinu með þeim  Pau Gasol, Aleksei Shved og Bogdan Bogdanovic.
Luka Doncic og Goran Dragic voru í úrvalsliðinu með þeim Pau Gasol, Aleksei Shved og Bogdan Bogdanovic. Vísir/Getty
Goran Dragic og Luka Doncic urðu ekki bara Evrópumeistarar saman með slóvenska landsliðinu á sunnudagskvöldið heldur voru þeir einnig valdir báðir í úrvalslið Evrópumótsins.

Goran Dragic skoraði 35 stig í úrslitaleiknum þar sem Slóvenía vann Serbíu 93-85 og var eftir leikinn kosinn besti leikmaður keppninnar.

Dragic er að hætta með slóvenska landsliðinu en hinn átján ára gamli Luka Doncic er rétt að byrja ferilinn sinn.

Dragic talaði afar vel um Doncic eftir mótið. „Munið það sem ég segi. Hann verður einn sá besti í heimi,“ sagði Goran Dragic um Luka Doncic.

Luka Doncic spilar með Real Madrid þessa dagana en það þykir nokkuð öruggt að hann verði valinn í NBA-deildina næsta sumar.

Spænskir fjölmiðlar hafa hinsvegar lítið aðgengi að Luka Doncic þar sem Real Madrid passar vel upp á strákinn sem er ennþá bara átján ára gamall þótt að hann spili leikinn eins og 28 ára reynslubolti.

„Luka er að mínu mati besti leikmaðurinn í Evrópu af þeim sem eru ekki orðnir 26 ára,“ sagði Goran Dragic. Það er ekkert smá hrós fyrir átján ára strák enda Dragic telur þar með að hann sé þegar betri en menn eins og Kristaps Porzingis, Dennis Schroder og Bogdan Bogdanovic.

Luka Doncic meiddist í úrslitaleiknum en hafði verið nálægt þrennunni í undanúrslitaleiknum á móti Spáni (11 sitg, 12 fráköst og 8 stoðsendingar) og skoraði 27 stig á móti Lettum í átta liða úrslitunum.

Goran Dragic þekkir vel til Luka Doncic og er búinn að gera lengi. Hann spilaði nefnilega með föður Luka Doncic í Slóveníu.

Sasa Doncic og Goran Dragic urðu nefnilega slóvenskir meistarar saman árið 2008 þegar Sara var 34 ára og Luka 9 ára. Árið eftir var Dragic kominn til Phoenix Suns í NBA-deidlinni og hefur spilað þar síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×