Fyrrverandi hnefaleikakappinn Jake LaMotta er látinn 95 ára að aldri en banamein hans ku hafa verið lungnabólga. BBC greinir frá þessu.
Auk farsæls hnefaleikaferils er LaMotta hvað þekktastur fyrir að hafa vera umfjöllunarefni kvikmyndarinnar Raging Bull sem kom út árið 1980. Robert De Niro sá um að túlka kappann í myndinni en hann hlaut einmitt Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn.
LaMotta keppti í 106 hnefaleikabardögum á rúmlega 13 ára ferli og var heimsmeistari í millivigt um tíma. Frægustu bardagar kappans eru án efa bardagar hans gegn Sugar Ray Robinson en þeir voru alls sex talsins.
Eftir að hnefaleikaferlinum lauk fékkst LaMotta við ýmislegt. Hann var meðal annars bareigandi, lék í fjölmörgum kvikmyndum og hélt uppistönd.
Erlent