Arna Ýr vakti mikla athygli í fyrra þegar hún hætti keppni í Miss Grand International eftir að eigandi keppninnar setti út á holdarfar hennar. Lýsti hún því yfir í lok október í fyrra að hún myndi ekki taka þátt í slíkri keppni aftur.
„Ég er komin með þvílikt upp í kok á þessu. Ég mun ekki gera þetta aftur. Ég var komin með þá hugmynd að hætta en þetta alveg sannaði það fyrir mér. Mér finnst samt eins og ég hafi hætt á toppnum. Með góð skilaboð út í samfélagið,“ sagði Arna Ýr í samtali við Stöð 2 eftir að hún hætti við að taka þátt í Miss Grand International í fyrra.
Alþjóðleg dómnefnd dæmdi keppnina út frá dómaraviðtölum og frammistöðu stúlknanna á sviðinu, bæði í sundfötum og síðkjólum.
Í dómnefndinni voru Raquel Pelisser sem var í öðru sæti í Miss Universe í fyrra, skartgripahönnuðurinn Charlie Lapson, tannlæknirinn og viðtalsþjálfarinn Dr. Carlos A. Morales og ráðgjafinn Kathy Martin-Smith en dóttir hennar var krýnd Miss Teen USA 2016. Í dómnefndinni er líka Amalie Leraand sem er þekkt fyrir baráttu sína fyrir jákvæðri líkamsímynd.