Fótbolti

Landsliðsþjálfari Norður-Írlands handtekinn vegna ölvunaraksturs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael O'Neill var handtekinn um helgina.
Michael O'Neill var handtekinn um helgina. Vísir/Getty
Michael O'Neill, landsliðsþjálfari Norður-Írlands í knattspyrnu, var handtekinn á sunnudag og var grunaður um ölvunarakstur, rétt utan Edinborgar í Skotlandi.

Hann á að mæta fyrir dómara í Skotlandi þann 10. október, tveimur dögum eftir að Norður-Írlandi mætir Noregi í lokaleik sínum í undankeppni HM 2018.

Norður-írska knattspyrnusambandið gaf út yfirlýsingu þar sem fram kom að forráðamenn þess hefðu fengið upplýsingar um atvikið en að þetta væri lögreglumál og að þeir myndu ekki tjá sig frekar um málið.

O'Neill hefur stýrt landsliði Norður-Írlands frá 2012 og kom liðinu á EM 2016 í Frakklandi, þar sem liðið komst í 16-liða úrslitin.

Norður-Írland stendur vel að vígi í undankeppni HM 2018 en liðið hefur unnið sex leiki í röð og er í öðru sæti riðilsins með nítján stig, fimm á eftir heimsmeisturum Þýskalands. Liðið er svo gott sem öruggt með að komast í umspilið í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×