Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega fyrirhugaða hækkun áfengisgjalds, sem boðuð er í nýju fjárlagafrumvarpi, í pistli á vef sínum í gær.
Fram kemur í pistlinum að félagið hafi spurt þegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 var lagt fram hvort engin takmörk væru fyrir skattlagningu á áfengi. Nú hafi svarið borist með nýju fjárlagafrumvarpi. „Þar er enn bætt duglega í skattpíningu neytenda þessarar einu neysluvöru; öll áfengisgjöld taka 2,2% verðlagshækkun og áfengisgjald á léttvín hækkar um 10% til viðbótar.“
„Skattlagning á áfengi er hins vegar orðin svo gjörsamlega fráleit að öll rök standa til þess að lækka þá skattinn á bjór fremur en að hækka hann á léttvíni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í pistlinum.
