Körfubolti

Sjóðheitir Spánverjar hófu titilvörnina af krafti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc Gasol skoraði níu stig fyrir Spán í stórsigrinum á Svartfjallalandi.
Marc Gasol skoraði níu stig fyrir Spán í stórsigrinum á Svartfjallalandi. vísir/epa
Sex leikir fóru fram á EM í körfubolta í dag.

Evrópumeistarar Spánverja hófu titilvörnina með því að rúlla yfir Svartfellinga, 99-60, í C-riðli.

Willy Hernangómez var atkvæðamestur hjá Spáni með 18 stig og níu fráköst. Sergio Rodríguez gaf 10 stoðsendingar á aðeins 14 mínútum. Þriggja stiga nýting Spánverja var lygileg, eða 64,7%.

Nikola Vucevic var stigahæstur hjá Svartfjallalandi með 16 stig.

Bojan Bogdanovic skoraði 23 stig og tók sjö fráköst þegar Króatía vann níu stiga sigur á Ungverjalandi, 58-67, í C-riðli. Dario Saric skoraði 15 stig.

Þá vann Tékkland 15 stiga sigur á Rúmeníu, 68-83.

Serbinn Bogdan Bogdanovic skoraði 30 stig gegn Lettum.vísir/getty
Bogdan Bogdanovic fór mikinn þegar Serbar báru sigurorð af Lettum, 92-82, í D-riðli. Bogdanovic skoraði 30 stig og gaf fjórar stoðsendingar fyrir serbneska liðið sem saknar nokkurra sterkra leikmanna á EM.

Dairis Bertans skoraði 23 stig og gaf sex stoðsendingar fyrir Letta. Kristpas Porzingis, leikmaður New York Knicks, skoraði 18 stig og varði fjögur skot.

Rússar unnu þriggja stiga sigur á Tyrkjum, 73-76. Alexei Shved skoraði 22 stig fyrir Rússland og Timofey Mozgov skoraði 20 stig og tók níu fráköst.

Cedi Osman átti frábæran leik í liði Tyrklands. Hann skoraði 28 stig, tók sjö fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og stal sjö boltum.

Þá vann Belgía Bretland, 103-90.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×