Körfubolti

Pavel ætlar að koma Pólverjum aftur á óvart eins og fyrir þrettán árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Mynd/FIBA
Pavel Ermolinskij verður í sviðsljósinu í dag þegar Ísland mætir Pólland á Evrópumótinu í Helsinki en það eru liðin þrettán ár síðan að Pavel steig sín fyrstu skref í íslenska landsliðsbúningnum.

Fyrsti landsleikur Pavels var einmitt á móti Póllandi og fór hann fram í Stykkishólmi 7. ágúst 2004. Sigurður Ingimundarson var þá þjálfari íslenska liðsins og henti nýliðanum beint inn í byrjunarliðið.

„Já ég man eftir þessum leik í Hólminum og líka af því að við unnum leikinn,“ sagði Pavel þegar þessi staðreynd var borin undir hann eftir æfingu liðsins í gær.

Pólverjar voru mjög hissa á sjá Pavel sem byrjaði sem leikstjórnandi í íslenska liðinu í sínum fyrsta landsleik.

„Ég er búinn að færa mig inn í senterinn núna og það á líka eftir að koma þeim á óvart,“ sagði Pavel léttur.

Núverandi herbergisfélagi hans, Hlynur Bæringsson, átti þarna frábæran leik á þáverandi heimavelli sínum í Hólminum en Hlynur var með 23 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar í 90-82 sigri.

En það er mikið undir fyrir íslensku strákana á móti Pólverjum í dag. Þetta er að flestra mati besti möguleiki liðsins til að landa sínum fyrsta sigri á Eurobasket.

„Ég finn fyrir firðingi í hópnum þar sem okkur finnst við fara í leik sem við eigum að vinna. Við teljum okkur vera sigurstranglegri. Ég veit ekki alveg hvaðan það kemur en það er bara tilfinningin sem er í gangi og ég held að það sé bara svaka flott,“ segir Pavel.

„Ég vil ekki nota orðið ótti en það er minni virðing borin fyrir þeim heldur en Grikkjunum. Það á eftir að hjálpa okkur mikið að vera kokhraustir á móti þeim,“ segir Pavel.






Tengdar fréttir

Þarf að vera klókari

Grikkir smjöttuðu á mistökum körfuboltastrákanna okkar í 29 stiga sigri í Helsinki í gær. Frábær annar leikhluti kveikti vel í fjölda Íslendinga sem voru mættir í höllina en hinir þrír leikhlutarnir töpuðust samtals 38-79. Einn af þeim sem geta gert miklu betur er Martin Hermannsson sem dró ekki dul á eigin ábyrgð eftir leik.

Martin: Ég hef aldrei séð það áður hjá íslensku landsliði

Martin Hermannsson er ekkert hrifnari af keppnisboltanum eftir nóttina. Forráðamenn evrópska körfuboltasambandsins voru nefnilega ekki að gera íslensla körfuboltalandsliðinu neinn greiða þegar þeir völdu keppnisboltann fyrir Eurobasket 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×