„Þeir tóku okkur í frákastabaráttunni og slökktu bara á okkur þegar við vorum að fara eitthvað. Við náðum ekkert að halda neinu "run-i" í gangi og þeir bara unnu okkur hægt og rólega yfir allan leikinn," hélt Tryggvi áfram í samtali við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann 365 miðla, í Helsinki.
Þessi leikur var mikilvægur leikur Íslands í riðlinum í voninni um að fara upp úr riðlinum, en nú segir Tryggvi að nú þurfi þeir einfaldlega að vinna aðra leiki til að komast upp.
„Við fórum í þennan leik til að vinna og við þurftum nánast að vinna til að komast áfram, en nú eru það bara breytt plön og við þurfum að vinna aðra leiki og fókusera á þá."
Sjá einnig:Umfjöllun: Ísland – Pólland 61-91 | Strákarnir ískaldir í skotunum og töpuðu stórt
Í fyrramálið er stórleikur gegn Frökkum og íslenska liðið þarf að bæta leik sinn til muna til þess að eiga séns gegn Frökkum.
„Það er bara leikur á morgun og það er gegn Frökkum. Þeir eru hörkugóðir og örugglega brjálaðir eftir tapið gegn Finnum. Þeir mæta örugglega í góðu standi," en hvað þarf að breytast?
„Ég bara veit það ekki. Maður er ekki búinn að skoða leikinn í dag og skoða Frakkana nægilega vel til þess að vita hvað við þurfum að gera, en við ætlum okkur að mæta betur stemmdir."
„Skotin voru ekki að detta og það var dálítið sagan okkar í dag. Villur á hinum og þessum stöðum sem voru ekki dæmdar annarsstaðar, en svona er þetta," sagði hinn stóri og stæðilegi Tryggvi að lokum.