Körfubolti

Kristófer: Töluðum um það inn í klefa að við þyrftum að njóta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristófer Acox, miðherji íslenska landsliðsins í körfubolta, átti afar góðan dag í stóru tapi gegn Frökkum á EM í körfubolta í kvöld. Kristófer segir að munurinn á liðunum sé mikill.

„Í fyrri hálfleik var orka og geðveikt að spila fyrir framan allt þetta fólk. Ég er mest svekktur að við getum ekki gefið þeim einn almennilegan leik,” sagði Kristófer í samtali við Arnar Björnsson, íþróttafréttamenn 365 miðla, í Helsinki.

„Að fá að koma og spila á móti svona stórri þjóð og svona frábærum leikmönnum gefur manni auka drif. Þetta var mjög gaman.”

Mikill munur var á leik íslenska liðsins í fyrri hálfleik og þeim síðari.

„Það fór mikinn orka í fyrri hálfleikinn, en við þurfum einhvernveginn að finna hvernig við getum stigið upp á erfiðum tíma. Þeir eru mjög góðir og meðal topp fimm þjóða í heiminum.”

„Þrátt fyrir á móti blæs þá þurfum við að nýta þennan stuðning sem við erum með, finna hvorn annan og gera okkur betri.”

Það er enga uppgjöf að finna í íslenska hópnum, að minnsta kosti ekki að mati Kristófers.

„Það getur ekki verið. Það eru tveir leikir eftir. Við vissum að þetta væri sterkur riðill og þetta eru sterk lið. Við sýnum á köflum að við eigum heima á þessu stóra sviði, en við þurfum að geta púslað saman 40 mínútum í alvöru leik. Ekki spila vel í fyrri hálfleik og svo endar þetta með stóru tapi eins og búið er að gerast í öllum leikjunum.”

„Maður má ekki vera hræddur. Við þurfum að fara í alla leiki til að vinna og vera ákveðnir og með sjálfstraust. Við töluðum það inn í klefanum fyrir leikinn að við þyrftum að njóta þess að spila gegn góðum liðum og góðum þjóðum.”


Tengdar fréttir

Jón Arnór: Kannski barnalegt að hugsa þannig

Jón Arnór Stefánsson missti af nær öllum undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Helsinki og það er augljóst á frammistöðu hans í fyrstu tveimur leikjunum að þar fer ekki leikmaður í leikæfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×