Körfubolti

Jón Halldór um frammistöðuna á EM: Þetta er eins og blaðra sem ekkert loft er í

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur Bæringsson átti slakan leik gegn Frökkum.
Hlynur Bæringsson átti slakan leik gegn Frökkum. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta laut í lægra haldi fyrir því franska, 79-115, í þriðja leik sínum á EM í dag. Ísland hefur tapað öllum þremur leikjum sínum á mótinu með samtals 95 stigum.

Jón Halldór Eðvaldsson, einn sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, vill sjá meiri útgeislun hjá leikmönnum íslenska liðsins.

„Manni finnst vanta alla stemmningu. Mér finnst þeir gefa svo lítið frá sér. Ég átti ekki von á því að þeir myndu vinna leik en það vantar allan neista. Það eru 1500 Íslendingar á hverjum leik þarna að hvetja þá áfram. Þetta er svo dauft,“ sagði Jón í samtali við Vísi í dag.

„Þeir eru ekkert að spila undir getu en það vantar allan kraft og að fólkið fái eitthvað til baka. Ísland tapaði öllum leikjunum á síðasta móti en strákarnir gáfu svo mikið af sér. Þetta er eins og blaðra sem ekkert loft er í. Þeir eru að leggja sig fram en eru ekki að selja fólkinu það.“

Jón Halldór ásamt góðvini sínum Fannari Ólafssyni.mynd/skjáskot
Jón Halldór segir að frammistaðan gegn Pólverjum í gær séu mestu vonbrigðin til þessa á mótinu.

„Menn mættu ekki til leiks í gær. Okkar lykilmenn gátu ekki rassgat,“ sagði Jón Halldór.

Ísland spilaði vel í fyrri hálfleik í dag en í þeim seinni steig Frakkland á bensíngjöfina og seig fram úr.

„Þegar þeir þurfa að gefa í gera þeir það. Þótt við værum bara sjö stigum undir í hálfleik voru Frakkar alltaf með tökin á leiknum. Þeir voru bara rólegir framan af,“ sagði Jón Halldór.

Íslensku stuðningsmennirnir hafa verið frábærir á EM.vísir/ernir
„Það verður ekki tekið af íslenska liðinu að frammistaðan í fyrri hálfleik var sú besta í þessum þremur leikjum. Svo áttu þeir bara við ofurefli að etja. Það er ekki hægt að dæma liðið út frá þessum leik. Við eigum að dæma liðið út frá leiknum gegn Póllandi.“

Hlynur Bæringsson átti slakan leik í dag og endaði aðeins með tvö stig og eitt frákast sem telst til tíðinda á þeim bænum.

„Hvað er að frétta? Í alvöru talað. Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum var hann ekki kominn með stig eða frákast. Þetta er óeðlilegt,“ sagði Jón Halldór að lokum.


Tengdar fréttir

Brynjar Þór: Geri það sem ég er bestur í

Brynjar Þór Björnsson, skytta íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að liðið verði að ná að spila meira en bara tuttugu mínútur góðar til að eiga séns í eins gott lið og Frakkar eru.

KKÍ fær þrettán milljónir í viðbótarstyrk

Körfuknattleikssamband Íslands ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands héldu í morgun blaðamannafund í keppnishöllinni í Helsinki þar sem íslenska körfuboltalandsliðið mætir því franska á eftir á Evrópumótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×