Ísrael vann óvæntan sigur á Þýskalandi í B-riðli á Evrópumótinu í körfubolta í kvöld. Fyrir leikinn hafði Þýskaland ekki tapað leik, og að sama skapi var Ísrael án sigurs.
Dennis Schröder var atkvæðamestur Þjóðverja með 20 stig og 7 stoðsendingar ásamt þremur stolnum boltum.
Richard Howell var besti maður vallarins með 23 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar og heila 7 stolna bolta fyrir Ísrael.
Ítalir töpuðu sínum fyrsta leik á Evrópumótinu þegar þeir lágu 78-73 fyrir Litháum í dag.
Adas Juskevicius var stigahæstur Litháa í dag með 20 stig. Næstur kom Mindaugas Kuzminskas með 14 stig.
Bestur allra á vellinum í dag var hins vegar Ítalinn Luigi Datome. Hann skoraði 24 stig, tók 3 fráköst, gaf eina stoðsendingu og stal 2 boltum fyrir ítalska liðið.
Í fyrsta leik dagsins í riðlinum unnu Úkraínumenn 81-88 sigur á Georgíu. Það var fyrsti sigur Úkraínumanna á mótinu.
Artem Pustovyi var duglegastur allra fyrir Úkraínu, en hann skoraði 19 stig, tók 7 fráköst, gaf 2 stoðsenidngar og stal þremur boltum.
Í liði Georgíu voru Zaza Pachulia og Giorgi Shermadini báðir með 17 stig.
