Innlent

Haniye og föður hennar verður vísað úr landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Haniye í afmælinu sínu á Klambratúni í byrjun ágústmánaðar.
Haniye í afmælinu sínu á Klambratúni í byrjun ágústmánaðar. vísir/laufey elíasdóttir
Allt stefnir í að feðginunum Haniye og Abrahim Malekym verði vísað úr landi á næstu dögum. Þetta fengu þau að vita í morgun eftir að kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að Haniye og Abrahim skyldi vísað aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.  

Mál Haniye og Abrahim hefur vakið mikla athygli undanfarið en þúsundir skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að þau fengju hæli hér á landi auk þess sem fjöldi fólks kom saman á Klambratúni í ágúst og fagnaði afmæli Haniye í byrjun ágúst. Hún á ekki afmæli fyrr en í október en vildi halda upp á afmælið hér á landi áður en henni og pabba hennar yrði vísað úr landi.

Foreldrar Haniye koma frá Afganistan, en sjálf fæddist hún í Íran árið 2005 þar sem afganskir flóttamenn hafa afar takmörkuð borgaraleg réttindi. Haniye er til að mynda ríkisfangslaus.

Haniye og faðir hennar voru brosmild á svip í afmælinu.Vísir/Laufey Elíasdóttir
Bæði í viðkvæmri stöðu

Móðir Haniye yfirgaf hana ári eftir að hún fæddist og hefur hún verið á flótta með föður sínum allt sitt líf og hefur búið í Íran, Tyrklandi, Grikklandi, Þýskalandi og á Íslandi, en þau hafa verið hér á landi frá því í desember.

Guðmundur Karl Karlsson, vinur feðginanna sem hefur aðstoðað þau hér á landi, segir íslensk yfirvöld halda því fram að það muni fara vel um þau í Þýskalandi. Yfirvöld þar í landi verði látin vita af viðkvæmri stöðu feðginanna en Abrahim er bæklaður eftir bílslys og Haniye ríkisfangslaus. Guðmundur segir söguna sýna annað en það að Abrahim og Haniye muni eiga gott líf í Þýskalandi.

„Við þekkjum fólk sem er í Þýskalandi í sömu stöðu og það er mjög erfitt. Það er mjög líklegt að þau muni ekki fá hæli og verði einfaldlega utan kerfisins,“ segir Guðmundur sem gagnrýnir málsmeðferð yfirvalda.

„Við munum halda áfram að láta í okkur heyra því við viljum einfaldlega að svona mál verði tekin til efnislegrar meðferðar,“ segir hann en kveðst þó ekki telja að hægt sé að fara með mál feðginanna eitthvað áfram til æðra stjórnvalds í kerfinu.

Það stefnir því allt í, eins og áður segir, að Haniye og Abrahim verði vísað úr landi á næstunni.

Hér fyrir neðan má sjá sjónvarpsfrétt frá því fyrr í sumar um feðginin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×