Körfubolti

Martin: Erum eins og gatasigti í vörninni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
„Þetta var rosalega erfiður leikur, það er kannski ástæða fyrir því að þeir eru taplausir hingað til,“ sagði Martin Hermannsson í viðtali við Arnar Björnsson eftir tap Íslands gegn Slóveníu á Eurobasket í Finnlandi í dag. „Eru með fáránlega góða leikmenn og hitta öllu ofan á það, þannig að þetta var rosalega erfitt.“

Íslensku leikmennirnir komu mjög sterkir til leiks í dag og voru yfir að loknum fyrri hálfleik, 25-23.

„Enn og aftur sínum við að við getum þetta, við erum góðir í körfubolta. Þegar við spilum saman og það er stemming í okkur þá erum við góðir. Svo aftur er eitthvað að gerast, þegar þeir setja smá áhlaup á okkur þá erum við að brotna, og það bara gengur ekki á svona stóru móti að brotna svona auðveldlega,“ sagði Martin.

„Þótt að þeir séu komnir 10 stigum yfir þá verðum við að halda áfram og minnka munin aftur. En þeir eru góðir í að halda forystu og góðir í körfubolta og góðir í að finna okkar veikleika. Þeir gerðu bara hrikalega vel.“

Slóvenska liðið skoraði 37 stig í öðrum leikhluta, og var staðan í hálfleik 43-60. „Það er allt of mikið. Alveg sama þótt við værum að spila á móti bandaríska landsliðinu, það er bara allt of mikið. Við þurfum einhvern veginn að hætta að vera eins og gatasigti í vörninni,“ sagði Martin Hermannson.

Martin var besti maður íslenska liðsins í dag, skoraði 18 stig, tók 5 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 5 boltum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×