Körfubolti

Finnur: Þeir fundu lausnir allan tímann

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, var almennt ánægður með frammistöðu Íslands gegn Slóvenum á Evrópumótinu í körfubolta í dag, en sagði varnarleikinn vera helsta vandamál liðsins. Arnar Björnsson ræddi við Finn eftir leikinn.

„Mér fannst við koma ágætlega út sóknarlega, náðum að setja saman fínar fléttur og fá körfurnar, en á sama tíma þá er varnarleikurinn ekki nógu góður.“

„Slóvenía náði að finna lausnir allan tímann. Þegar það fór að hiksta hjá okkur sóknarlega og þeir héldu áfram að gera sitt sóknarlega þá náttúrulega jókst munurinn og þeir fóru að fá hraðaupphlaup og skora í kjölfarið, þannig að á meðan við náum ekki að stoppa þá og treysta á vörnina okkar þá verður þetta alltaf mjög erfitt,“ sagði Finnur.

Íslendingar voru sterkir framan af í leiknum og leiddu eftir fyrsta leikhluta, en leikurinn tapaðist að lokum 75-102.

„Við erum minni og við þurfum að taka áhættu hér og þar. Þeir eru bara með það mikla hæfileika og það mikinn líkamlegan styrk í mörgum stöðum að við þurfum nánast að spila óaðfinnanlega til þess að ná að loka hlutunum. Sérstaklega í lokinn þegar Dragic stígur upp og byrjar að stýra showinu, nær að vera klókur og næla sér í villur og koma sér á vítalínuna og byggja upp muninn, þá var þetta strax erfitt.“

„Ég var ánægðastur með strákana sem komu af bekknum og náðu að rífa þetta upp. Frammistaða Elvars var mjög flott, mér fannst Tryggvi koma inn og líma vörnina saman. Við héldum áfram út allan leikinn. Við náum að skapa okkur skot og skapa okkur færi. Haukur, Hlynur og Martin allir að gera vel, sérstaklega sóknarlega, en þetta kemur allt til baka ef við náum ekki að finna leiðir til að verjast þessum liðum, þá verðum við alltaf í bölvuðu basli,“ sagði Finnur að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×