Körfubolti

Aðeins annar leikur Norðurlandaþjóða á EM á síðustu 60 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Ernir
Ísland og Finnland mætast í kvöld í lokaleik sínum í riðlinum á EM í Helsinki og það er ekki á hverjum degi sem Norðurlandaþjóðir mætast á Eurobasket.

Það er búist við mikill stemmningu á leiknum í kvöld enda hafa finnsku og íslensku stuðningsmennirnir staðið vel við bakið á sínum mönnum á mótinu til þessa. Það gerir þetta kvöld enn sérstaka að þarna séu Norðurlandaþjóðir að eigast við.

Það gerðist síðast á EM 2013 þegar Finnar og Svíar mættust en þá höfðu Norðurlandaþjóðir ekki mæst í úrslitakeppni EM síðan á Eurobasket 1955 eða í 58 ár. Leikurinn í kvöld verður aðeins fimmti leikur Norðurlandaþjóða í sögu Eurobasket en fjórar Norðurlandaþjóðir hafa náð að komast inn á mótið.

Finnarnir hafa tekið þátt í öllum leikjunum nema einum en Svíar og Danir mættust á Evrópumótinu 1955.

Finnar hafa líka unnið alla þrjá leiki sína á móti Norðurlandaþjóðunum og þá alla með 21 stigi eða meira.

Finnar unnu 81-60 sigur á Svíum á EM 2013 í Slóveníu en það var annar leikur liðanna í riðlakeppninni. Stór hluti leikmannahóps Finna í kvöld tók þátt í þeim leik.



Leikir Norðurlandaþjóða á Eurobasket

Eurobasket 2017 í Helsinki

Ísland - Finnland ??-??

Eurobasket 2013 í Slóveníu

Finnland-Svíþjóð 81-60

Eurobasket 1955 í Ungverjalandi

Danmörk-Svíþjóð  41-51

Eurobasket 1953 í Sovétríkjunum

Svíþjóð - Finnland 32-55

Eurobasket 1951 í Frakklandi

Finnland - Danmörk 44-19



Tvær eða fleiri Norðurlandaþjóðir á einu Eurobasket:

EM 2017 - Ísland og Finnland

EM 2015 - Ísland og Finnland

EM 2013 - Finnland og Svíþjóð

EM 1995 - Finnland og Svíþjóð

EM 1965 - Finnland og Svíþjóð

EM 1961 - Finnland og Svíþjóð

EM 1955 - Finnland, Svíþjóð og Danmörk

EM 1953 - Finnland, Svíþjóð og Danmörk

EM 1951 - Finnland og Danmörk






Fleiri fréttir

Sjá meira


×