Eiður hefur ekkert spilað síðan hann yfirgaf Molde í byrjun ágúst á síðasta ári. Seinna í mánuðinum samdi hann við Pune City á Indlandi en meiðsli komu í veg fyrir að hann spilaði með liðinu.
Eiði bauðst að spila með Breiðabliki seinni hluta tímabilsins í Pepsi-deildinni en hafnaði því.
„Ég held að ég muni aldrei hætta í fótbolta. Ég mun mæta á æfingar og leika mér. Ég mun spila fótbolta þangað til ég get ekki labbað. En með atvinnumannaknattspyrnu, ég held að það sé löngu ljóst. Það er ár síðan ég spilaði síðast og ég er enn stífur þegar ég vakna á morgnana,“ sagði Eiður þegar Gummi spurði hann hvort hann væri hættur.
Eiður, sem verður 39 ára síðar í mánuðinum, átti langan og farsælan feril. Hann skaust fram á sjónarsviðið með Val árið 1994, aðeins 15 ára gamall, og fór í kjölfarið til PSV Eindhoven í Hollandi.

Eiður gekk í raðir Barcelona sumarið 2006. Hann lék í þrjú ár með Katalóníuliðinu. Á síðasta tímabili sínu með Barcelona vann Eiður þrennuna svokölluðu; spænsku úrvalsdeildina, spænsku bikarkeppnina og Meistaradeild Evrópu. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur unnið Meistaradeildina.
Eiður fór víða á síðustu árunum á ferlinum og lék í Frakklandi, Englandi, Grikklandi, Belgíu, Kína og Noregi.
Eiður lék sinn fyrsta landsleik 1996 þegar hann kom inn á fyrir föður sinn, Arnór Guðjohnsen, í vináttulandsleik gegn Eistlandi.
Eiður lék alls 88 landsleiki og skoraði 26 mörk. Hann er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi. Eiður var í íslenska liðinu sem fór á EM í Frakklandi í fyrra. Hann kom við sögu í tveimur af fimm leikjum Íslands á mótinu.