Körfubolti

Haukur Helgi: Veit ekki hvort ég fer að gráta eða hlæja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson var léttur þegar íslensku leikmennirnir hittu blaðamenn á hóteli íslenska liðsins í dag en framundan er fyrsti leikurinn á Eurobasket á morgun.

„Ég segi nú ekki að það sé skyldusigur á móti Grikkjum. Við förum í þennan leik eins og alla aðra leiki og ætlum að sigra.Við þurfum að koma okkur í þá stöðu að geta sigrað það er hugarfarið,“ sagði Haukur Helgi Pálsson í samtali við Arnar Björnsson.

Leikmenn liðsins bíða spenntir eftir fyrsta leiknum og það sést á andlitum þeirra að þeir eru orðnir spenntir. En hversu gaman er þetta?

„Þetta er bara frábært. Umgjörðin er meiri núna finnst mér. Þetta er búið að vera bara óaðfinnanlegt, alveg fáránlega skemmtilegar og tilfinningar eru miklar,“ sagði Haukur Helgi við Arnar.

„Maður er alltaf að tala um þessar tilfinningar en þetta er bara þannig. Um leið og ég stíg inná þetta gólf veit ég ekki hvað fer um mig, hvort ég fer að gráta eða hlæja. Ég hlakka til að stíga á gólfið og sjá alla stuðningsmennina og fara að spila á móti þessum mönnum," sagði Haukur Helgi.

 

Hann minnist þessa þegar íslenska landsliðið fékk frábæran stuðning á EM í Berlín fyrir tveimur árum en stuðningurinn verður ekki minni nú.

„Við gerðum þetta fyrir tveimur árum en umgjörðin er betri núna. Þegar maður steig á þetta gólf fyrir tveimur árum þá fylltist maður af þvílíku stolti og krafti.  Þegar maður horfði upp í stúkuna að sjá alla í bláu eða hvítu og spila fyrir þjóðina. Það er það sem maður er að gera og bíður eftir allan veturinn að spila fyrir land og þjóð. Fjölskylda mín verður þarna og liðsfélagar og það er það sem skiptir máli núna að standa sig fyrir liðsfélaga sína og gera fjölskyldu stolta og fólkið sem er þarna,“ sagði Haukur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×