Íslenska körfuboltalandsliðið er á uppleið á styrkleikalista FIBA fyrir Evrópumótið sem hefst í næstu viku en íslensku strákarnir hækka sig um tvö sæti á nýjasta listanum.
Ísland tapaði fjórum síðustu undirbúningsleikjum sínum fyrir keppnina en það kemur ekki í veg fyrir að bæði Bretland og Úkraína detti niður fyrir Ísland á listanum. Rúmenía rekur síðan áfram lestina.
FIBA hefur verið að gefa reglulega út styrkleikalista yfir liðin 24 sem keppa á Evrópumótinu í ár. Íslenska liðið byrjaði í neðsta sæti á listanum en hefur síðan náð að lyfta sér aðeins frá botninum.
Nú er það innkoma framtíðarmiðherjans Tryggva Snæs Hlinasonar sem er að hækka íslenska liðið á listanum. Í umsögn um stöðu Íslands á listanum þá er það miðherjinn stóri og stæðilegi frá Svartárkoti sem á alla athyglina.
„Passið ykkur því Hlinason er að koma. Vonarstjarna Íslands skoraði 19 stig á móti Litháen og sýndi Valencia-mönnum hvað þeir eiga von á í vetur. Áður en hann fer til Spánar þá fær hann að eina kennslustund eða fleiri frá stórum NBA-leikmönnum i liðum Frakka, Grikkja og Slóvena. Kannski of snemmt fyrir að hann að drottna á þessu móti,“ skrifar blaðamaður FIBA um Ísland og aðallega Tryggva.
Það er vissulega erfitt verkefni framundan í riðli Íslands á Evrópumótinu en öll hin fimm liðin eru fyrir ofan íslenska liðið á styrkleikalistanum. Styðst er í heimamenn í Finnlandi sem eru í 18. sæti og þá eru Pólverjar í fjórtánda sæti.
Það er aftur á móti fjarlægari draumur að vinna lið eins og Frakkland (3. sæti), Grikkland (5. sæti) eða Slóveníu (9. sæti).
Það má sjá allan listann hér.

